Áhrif langvarandi sykursýki á heila

Rannsóknir benda til að langvarandi sykursýki, bæði af gerð I og II, tengist versnandi vitrænni færni og aukinni hættu á Alzheimerssjúkdómi.

Áhrif í heila
Niðurstöður margra rannsókna hafa sýnt að heilar eldra fólks sem þjáist af langvarandi sykursýki hafa orðið fyrir meiri rýrnun og hafa meiri skemmdir í hvíta efninu heldur en heilbrigðir jafnaldrar þeirra. Í sumum rannsóknum sést aukin rýrnun heilavefjar aðeins þegar háþrýstingur er samfara ómeðhöndlaðri sykursýki en í öðrum hefur rýrnunin verið marktæk eftir að búið er að taka út áhrif háþrýstings.

Tengsl við Alzheimerssjúkdóm
Í framvirkri rannsókn var fylgst var með 824 einstaklingum yfir 55 ára aldri í allt að 9 ár. Alls þróaði 151 einstaklingur með sér Alzheimerssjúkdóm á rannsóknartímabilinu. Niðurstöður sýndu að einstaklingar með sykursýki höfðu 65% meiri líkur á að fá Alzheimerssjúkdóm en fólk sem ekki hafði sykursýki.

Margar aðrar rannsóknir hafa sýnt tengsl á milli sykursýki (I og II) og heilabilunar, bæði Alzheimerssjúkdóms og blóðrásarheilabilunar.

Dr. Bernstein’s Diabetes Solution: The Complete Guide to Achieving Normal Blood Sugars

Sykursýki og vitræn skerðing
Áhrif sykursýki á vitræna færni hafa verið rannsökuð í yfir 80 ár og hafa margar rannsóknir staðfest að langvarandi sykursýki getur haft í för með sér breytingar á vitrænni færni fólks til hins verra. Niðurstöður eru þó misvísandi varðandi hvaða þáttur vitrænnar færni lætur helst undan síga. Ein rannsókn á fólki á miðjum aldri sem hafði haft sykursýki II í minna en 10 ár sýndi að rýrnun heilavefjar takmarkaðist við dreka (hippocampus) og skerðing á vitrænni færni takmarkaðist við minni (drekinn gegnir einmitt lykilhlutverki í starfsemi minnis). Því verri sem blóðsykursstýring var, því meiri var rýrnunin í dreka. Niðurstöðurnar töldu höfundar vera til marks um að fyrstu áhrif sykursýki II á vitræna færni sæjust í dreka.

Byggt á:

-Arvanitakis, Z., Wilson, R. S., Bienias, J. L., Evans, D. A. og Bennett, D. A. (2004). Diabetes mellitus and risk of Alzheimer disease and decline in cognitive function. Arch Neurol, 61(5), 661-666.

-Cukierman, T., Gerstein, H. og Williamson, J. (2005). Cognitive decline and dementia in diabetes—systematic overview of prospective observational studies. Diabetologia, 48 (12), 2460-2469.

-de Bresser, J., Tiehuis, A. M., van den Berg, E., Reijmer, Y. D., Jongen, C., Kappelle, L. J. o.fl. (2010). Progression of cerebral atrophy and white matter hyperintensities in patients with type 2 diabetes. Diabetes Care, 33 (6), 1309-1314.

-Gold, S., Dziobek, I., Sweat, V., Tirsi, A., Rogers, K., Bruehl, H. o.fl. (2007). Hippocampal damage and memory impairments as possible early brain complications of type 2 diabetes. Diabetologia, 50 (4), 711-719.


This entry was posted in Áhrif sjúkdóma, Dreki, Sykursýki and tagged , , , . Bookmark the permalink.

One Response to Áhrif langvarandi sykursýki á heila

  1. Pingback: Háþrýstingur og heilahreysti - Heilahreysti.isHeilahreysti.is

Leave a Reply