Blindsýn: Skyggnigáfa, kraftaverk eða eitthvað allt annað?

Sjáðu þetta makalausa myndband hér að neðan. Það sýnir karlmann sem kallaður er TN, þræða sig varlega en örugglega, eftir gangi sem fullur er af alls kyns hindrunum. Þetta er ekkert smávegis afrek, því TN er algjörlega blindur eftir að hafa fengið tvær heilablæðingar sem skemmdu sjónbörkinn í báðum heilahvelum.

Er þetta fyrirbæri ekki magnað? Maðurinn sér ekkert en getur samt forðast allar hindranir sem verða á vegi hans! Ef maður vissi ekki betur myndi maður trúlega tala um yfirskilvitlega skynjun, kraftaverk eða eitthvað annað dulspekilegt, … en það vill svo til að við vitum betur.

picture: primary visual cortexÞað sem myndbandið sýnir er dæmi um svokallaða blindsýn. Blindsýn er skilgreind sem geta fólks sem er blint vegna skemmda í sjónberki (stundum kallað striate cortex, primary visual cortex eða V1), til að svara áreiti sem það er sér ekki meðvitað um að skynja.

Þó augun séu nauðsynleg til þess að við getum skynjað umhverfi okkar sjónrænt, eru þau ein og sér ekki nægjanleg. Til þess að sjá í kringum okkur þurfa sjónboðin sem berast frá augunum að ná til aftasta hluta heilans í sjónbörkinn, þar sem unnið er með sjónboðin og þau svo send áfram til frekari úrvinnslu í öðrum svæðum heilans. Tiltekin svæði í sjónberki heilans samsvara tilteknum hlutum sjónsviðsins, þannig að ef skemmd kemur í hluta sjónbarkar, skerðist sjónsviðið einnig að hluta til. Ef sjónbörkurinn skemmist allur, hverfur sjónin alveg. Fólk með skemmdan sjónbörk er haldið svokallaðri barkarblindu (cortical blindness), það er blint jafnvel þó augun séu í fullkomnu lagi, því sjónboðin sem berast frá augunum fá ekki þá úrvinnslu sem þau þurfa á sjónsvæðum heilans.

Hvernig má þetta vera?
Blindsýn hefur verið útskýrð með tilvísun til tveggja aðgreindra sjónbrauta í heilanum sem þróuðust á mismunandi tímum í þróunarsögu mannsins og þjóna mismunandi hlutverkum í sjón.

Fyrri brautin er þróunarfræðilega eldri og frumstæðari. Hún nær frá augunum til heilastofns og fara boðin svo þaðan til annarra svæða í heilanum. Þessi sjónbraut hefur með ósjálfráð viðbrögð okkar við sjónáreitum að gera, t.d. stýringu augnhreyfinga, staðsetningu augnaráðs og höfuðs og ósjálfráða beiningu athyglinnar að hreyfingum sem koma inn á jaðarsvæði sjónsviðsins, svo eitthvað sé nefnt.

Hin sjónbrautin er þróunarfræðilega nýrri og háþróaðri, nær frá augum, í gegnum stúku (thalamus) og til sjónbarkar aftast í heilanum. Þegar við horfum í kringum okkur og erum meðvituð um umhverfi okkar, er það vegna sjónboða sem fara um þessa braut.

Í fólki með blindsýn er síðarnefnda brautin (sú þróaðri) skemmd, en fyrrnefnda, frumstæða sjónbrautin er í lagi. Sjónboðin fara frá heilbrigðum augunum um báðar sjónbrautirnar, en í nýrri brautinni stoppa boðin við skemmda sjónbörkin, en renna hindrunarlaust í gegnum eldri brautina. Vegna þess að sjónboðin fá enga úrvinnslu í sjónberkinum er sjúklingurinn sér ekki meðvitaður um að skynja neitt sem kemur inn í sjónsvið hans. Hér er áherslan á ,,meðvitaður um að skynja”, því eins og greinilega sést hjá manninum í myndbandinu, er til einhver önnur tegund af sjónskynjun, einhvers konar skynjun sem vísar honum veginn framhjá hindrunum, án þess að hann sé meðvitaður um að sjá nokkurn skapaðan hlut. Það sem hjálpaði TN að þræða sig framhjá hlutum í vegi hans var því frumstæðari sjónbrautin, sem var heil og óskemmd.

TN sjálfur sagði að hann hafi ekki verið sér meðvitaður um neina hluti í vegi hans, hann kvaðst hafa gengið svona bara vegna þess að honum hafi langað til þess.

Er vilji okkar jafn frjáls og við gjarnan höldum?
Skýringin á blindsýn sem gefin er hér að ofan er aðeins ein af nokkrum sem fram hafa komið og mun tíminn sjálfsagt leiða okkur nær sannleikann um þetta forvitnilega fyrirbæri. Það sem er kannski merkilegast við blindsýn, er að hún sýnir okkur svo glögglega að við nemum ýmislegt í umhverfi okkar sem við erum ekki meðvituð um, en sem engu að síður hefur áhrif á hegðun okkar. Við vitum auðvitað ekki að hversu miklu marki hegðun okkar stjórnast af hlutum sem við skynjum ómeðvitað, en gott er að hafa í huga að frjáls vilji okkar er hugsanlega ekki alltaf jafn frjáls og við upplifum sjálf og ótal margar sálfræðilegar tilraunir hafa staðfest að mannfólkið er duglegt að gefa svokallaðar eftir á skýringar á athöfnum sínum, svipað og TN gerði, þegar hann sagðist hafa gengið eins og hann gerði ,,bara af því hann langaði til þess”.

This entry was posted in Blindsýn, Heilinn, Hnakkablöð, Sjónbörkur and tagged , , , , , , , , , . Bookmark the permalink.

Leave a Reply