Ekki borða frá þér allt vit!
Tengsl ofþyngdar og hugrænnar færni

Það magn hitaeininga sem við neytum daglega á miðjum aldri, virðist geta haft áhrif á vitræna færni okkar síðar á æviskeiðinu. Heili okkar rýrnar dálítið með hverju árinu eftir að fullorðinsaldri er náð, en ef við erum í ofþyngd virðist þróunin vera hraðari, þ.e. heilinn rýrna hraðar en annars væri.

Meira hold – minni heili
Í rannsókn einni, þar sem samband ofþyngdar og heilarýrnunar var skoðuð, var hópi kvenna fylgt eftir í 24 ár. Rýrnun á mismunandi svæðum í heila var mæld í 4 skipti þegar konurnar voru á aldrinum 70 – 84 ára.

Four lobes animation small

Blátt:framheili, gult:hvirfilblað, grænt:gagnaugablað, rautt:hnakkablað

 

 


Niðurstöðurnar sýndu fylgni á milli rýrnunar heilavefs í gagnaugablöðum og líkamsþyngdarstuðuls (BMI), þannig að þær konur sem höfðu hærri líkamsþyngdarstuðul, höfðu almennt meiri rýrnun í heilavef á þessu svæði. Reiknað var út að fyrir hvert 1 kg/m2 aukningu í líkamsþyngdarstuðli, jukust líkurnar á rýrnun í gagnaugablaði heila um 12-16%. Í þessari rannsókn sáust þessi tengsl aðeins í gagnaugablöðum, en ekki á öðrum svæðum heilans, en aðrar rannsóknir hafa sýnt tengsl við rýrnun í framheila, fremri gyrðisfellingu (anterior cingulate gyrus), dreka (hippocampus) og stúku (thalamus).

Sambandið á milli rúmmáls heila og vitrænnar færni er þó alls ekki línulegt og því er nauðsynlegt að skoða einnig rannsóknir á tengslum ofþyngdar og frammistöðu í prófum sem meta vitræna færni fólks. Þær gefa til kynna að ofþyngd á miðjum aldri sé tengd slakari vitrænni færni og hraðari hnignun þessarar sömu færni síðar á ævinni.

Meira mittismál – verri vitræn færni
Málin eru auðvitað aldrei svona einföld, því dreifing fitunnar um líkamann virðist líka skipta máli í þessu sambandi. Ein rannsókn sýndi að sambandið á milli ofþyngdar og frammistöðu á prófum sem meta vitræna færni er sterkara þegar fitusöfnunin er mest um miðju líkamans. Með öðrum orðum virðist fólk í ofþyngd sem safnar fitunni um miðjuna vera í meiri hættu á vitrænni skerðingu en of þungt fólk með jafnari fitudreifingu.
Kyn gæti líka skipt máli, því í sumum rannsóknum sjást þessi tengsl á milli vitrænnar færni og líkamsþyngdarstuðuls aðeins hjá körlum en ekki konum.

Ofgnótt hitaeininga og Alzheimerssjúkdómur
Ofþyngd á miðjum aldri getur líka aukið líkurnar á Alzheimerssjúkdómi síðar á ævinni. Sumar rannsóknir sýna þessi tengsl ofþyngdar og Alzheimerssjúkdóms aðeins hjá konum, en aðrar bæði hjá körlum og konum. Ein rannsókn með yfir 10 þúsund þátttakendum á aldrinum 40-45 ára sýndi til dæmis að þeir sem voru í ofþyngd á þessum aldri, voru þrefalt líklegri til að þróa með sér Alzheimerssjúkdóm og fimmfalt líklegri til að þróa með sér blóðrásarheilabilun (vascular dementia) 30 árum síðar, heldur en fólk sem ekki var í ofþyngd. Önnur rannsókn sýndi að aukin hætta á vitrænni skerðingu eða Alzheimerssjúkdómi var aðeins fyrir hendi þegar fitusöfnunin var mest í kringum mittið.

Hér má sjá myndband á YouTube þar sem dr. Larry McCleary ræðir um tengsl ofþyngdar og heilahreysti.

Ljósmynd: By Polygon data were generated by Database Center for Life Science(DBCLS)[2]. (Polygon data are from BodyParts3D[1]) [CC-BY-SA-2.1-jp], via Wikimedia Commons

Byggt á:

Dahl, A., Hassing, L. B., Fransson, E., Berg, S., Gatz, M., Reynolds, C. A. o.fl. (2010). Being overweight in midlife is associated with lower cognitive ability and steeper cognitive decline in late life. The Journals of Gerontology Series A: Biological Sciences and Medical Sciences, 65A(1), 57-62.

Gustafson, D., Lissner, L., Bengtsson, C., Bjorkelund, C. og Skoog, I. (2004). A 24-year follow-up of body mass index and cerebral atrophy. Neurology, 63(10), 1876 – 1881.

Jeong, S. K., Nam, H. S., Son, M. H., Son, E. J. og Cho, K. H. (2005). Interactive effect of obesity indexes on cognition. Dementia and Geriatric Cognitive Disorders, 19(2-3), 91-96.

West, N. A. og Haan, M. N. (2009). Body adiposity in late Life and risk of dementia or cognitive impairment in a longitudinal community-based study. The Journals of Gerontology Series A: Biological Sciences and Medical Sciences.

Whitmer, R. A., Gunderson, E. P., Quesenberry, C. P., Zhou, J. og Yaffe, K. (2007). Body mass index in midlife and risk of Alzheimer disease and vascular dementia. Current Alzheimer Research, 4, 103-109.

This entry was posted in Áhættuþættir fyrir heilabilun, Alzheimerssjúkdómur, Blóðrásarheilabilun, Gagnaugablöð, Heilabilun, heili, Hreyfing, Líkamsrækt, Ofþyngd, Ofþyngd and tagged , , , , , , , , , , , . Bookmark the permalink.

Leave a Reply