Erlent tónfall eftir heiladrep

4324502699_34337f4c1a_zÞað getur verið erfitt að læra erlent tungumál eftir að við höfum slitið barnsskónum. Nýr orðaforði, málfræðireglur og sagnbeygingar eru viðráðanleg. Að læra lýtalausan framburð er önnur saga. Einstök hljóð eru oft framandi og til að byrja með er það okkur ofviða að bera fram löng og hljóðfræðilega flókin orð með eðlilegum hraða. Og svo er það hljómfallið! Smátt og smátt gefur maður upp á bátinn drauminn um lýtalausa frönsku og sættist við íslenska hreiminn.

En hvernig fyndist þér ef þú færir allt í einu að tala móðurmál þitt með erlendum hreim? Þessu undarlega heilkenni var fyrst lýst snemma á 20. öldinni og er eitt af fáum taugafræðilegum frávikum sem reglulega rata í fjölmiðla. Þann 20. júní sl. sagði DV til dæmis frá ástralskri konu sem fór að tala ensku með frönskum hreim eftir alvarlegt bílslys.

Áunninn erlendur hreimur

Lítilsháttar heilaskaði nægir til að trufla það ferli sem annast stýringu og samhæfingu talfæra þannig að málhljóð séu rétt borin fram og tónfall eðlilegt. Þannig getur til dæmis örlítill blóðtappi í fremri hluta vinstra heilahvels orðið til þess að sjúklingurinn fer að tala með erlendum hreim. Á ensku kallast þetta fyrirbæri Foreign accent syndrome (FAS). Á íslensku mætti kalla það áunninn erlendan hreim. Hinsvegar er þetta eiginlega ekki réttnefni því heitið gefur til kynna að sjúklingurinn hafi tileinkað sér nýja færni (þ.e. nýjan hreim) þegar raunin er sú að viðkomandi hefur glatað hæfileikanum að tala rétt. Það er svo kunnugleiki okkar af öðrum málum sem gerir það að verkum að við túlkum það sem við heyrum sem franskt, rússneskt eða þýskt hljómfall. Þetta heilkenni hefur því einnig verið kallað gervihreimur. Áunninn erlendur hreimur er sjaldgæfur og fæst heilbrigðisstarfsfólk rekst á slíkt á starfsævinni.
Því hefur verið haldið fram að tónfallsbreytingar í tali geti, í stöku tilvikum, átt sér sálrænar orsakir. Sú var ekki raunin í eftirfarandi tilfelli enda þótt heilbrigðisstarfsmenn sem þekktu ekki til fyrirbærisins hafi í fyrstu talið að svo væri.

Sjúkratilfelli

Þrjátíu og sjö ára gömul íslensk kona missti skyndilega málið og gat heldur ekki skrifað. Hún skildi talað mál og gat lesið. Næsta dag hafði talið lagast en talaði enn hægt og með óeðlilegu tónfalli og var þvoglumælt. Einhverjum fannst hún hljóma eins og rússneska sendiherrafrúin! Öðrum fannst hún tala líkt og Þjóðverji.

Nokkru síðar var konan lögð inn á endurhæfingardeild og hljómaði þá enn eins og útlendingur þrátt fyrir töluverðar framfarir. Hún gat borið einstök orð fram með réttum hljómi en samsetning þeirra í orð og setningar var erfið. Taugasálfræðilegt mat á minni, einbeitingu og annarri hugrænni færni leiddi ekki í ljós neina erfiðleika nema hvað hún átti stöku sinnum erfitt með að finna heiti hluta.

Konunni létti að heyra að þessar breytingar á tali hefðu nafn og væru þekktar þó sjaldgæfar væru. Segulómun af höfði sýndi ummerki blóðtappa á framanmiðjufellingu í vinstra heilahveli (sjá hér). Bati konunnar var áfram hraður en þau okkar sem þekktu til hennar gátum enn heyrt leifar af “rússneska” hreimnum ári síðar. Hægt er að lesa nánar um þetta sjúkratilfelli í Læknablaðinu (Erlent_tonfall_eftir_heiladrep_1998)

Fyrir þá sem skilja ensku er góð umfjöllun um efnið á National Public Radio.

This entry was posted in Áhrif sjúkdóma. Bookmark the permalink.

Leave a Reply