Eru svefntruflanir afleiðing eða orsök í Alzheimerssjúkdómi?

Góður svefn er afskaplega mikilvægur fyrir heilsu okkar, líðan og afköst í daglegu lífi. Það skiptir ekki einungis máli að fá nægan svefn, gæði svefnsins skipta líka miklu máli.

Picture of EEG recording
Mynd:Petter Kallioinen (Own work), á Wikimedia Commons
Svefngæðin er hægt að meta að einhverju leyti með svokölluðu heilariti (EEG), en þá er rafskautum sem nema rafvirkni í taugafrumum heilans komið fyrir á höfuðkúpu og niðurstöður skráðar sem bylgjur af mismunandi sveiflutíðni.Rannsóknir með heilaritum hafa leitt í ljós ákveðin mynstur rafvirkni heila í svefni sem notuð eru til að skipta svefninum í ákveðin svefnstig. Dæmigerður fullorðinn einstaklingur fer fyrst í gegnum stig 1, 2 og 3 (í sífellt dýpri svefn með æ hægari bylgjum) áður en hann færist yfir í REM-svefninn (þetta er stigið sem okkur dreymir á og er með hraðari bylgjum), eftir um það bil 80 mínútur. Þetta ferli er svo endurtekið mörgum sinnum á nóttu og tekur hver lota um það bil 90 mínútur. Eftir því sem lengra líður á nóttina minnkar hlutfall hægbylgjusvefnsins í hverri lotu og hlutfall draumsvefnsins eykst.

Aldurstengdar breytingar í svefnmynstri fólks
Old Man RestingÞað er mýta að eldra fólk þurfi minni svefn en það yngra því svefnþörf okkar helst stöðug í gegnum fullorðinsárin. Með hækkandi aldri reynist aftur á móti oft á tíðum erfiðara að ná góðum nætursvefni í einni lotu, því eldra fólk á í meiri erfiðleikum með að festa svefn og að halda sér sofandi heila nótt. Þá hafa heilaritsrannsóknir sýnt að hlutfall djúpsvefns (hægar bylgjur) minnkar og meira tími fer í léttari svefn.

Rannsókn Bryce Mander og félaga frá 2012 sýndi að samband virðist vera á milli rýrnunar heilavefs, versnandi minnis og svefntruflana, en allt eru þetta þættir sem tengjast dæmigerðri öldrun. Niðurstöður þeirra gefa til kynna að formbreytingar í heila verði til þess að svefnmynstur raskast með þeim afleiðingum að minni hrakar. Meö öðrum orðum verður aldurstengd rýrnun heilavefs í framheila til þess að hægbylgjusvefn minnkar, sem aftur verður til þess að minni hrakar (sjá meira hér um tengsl svefns og minnis).

Svefntruflanir og Alzheimerssjúkdómur
Eitt aðalsmerki Alzheimerssjúkdómsins er uppsöfnun próteins sem kallast amyloid-beta, í heilanum. Hugsanlegt er að svefnleysi eða truflað svefnmystur hafi hlutverki að gegna í þróun sjúkdómsins því sumar rannsóknir hafa sýnt að skortur á svefni hjá músum getur aukið útfellingar á amyloid-beta í heila. Ein rannsókn sýndi hins vegar hið gagnstæða, þ.e. svefnmynstur breyttist við amyloid-beta uppsöfnun í heila. Þegar amyloid-beta próteinum var aftur eytt úr heilanum snerist hringrás svefns og vöku til baka í eðlilegt horf, sem gefur til kynna að amyloid-beta uppsöfnun hafi valdið svefntruflununum.

En það eru ekki bara rannsóknir á músum sem hafa gefið til kynna tengsl á milli svefntruflana og Alzheimerssjúkdóms því rannsóknir á fólki hafa sýnt það sama. Kristine Yaffe og félagar hennar rannsökuðu tengsl kæfisvefns og heilabilunar og komust að því að eldri konur með kæfisvefn voru í næstum tvisvar sinnum meiri hættu á að þróa með sér heilabilun innan 5 ára, en jafnaldrar þeirra sem ekki höfðu kæfisvefn.

Önnur rannsókn sýndi að aukinn dagsvefn og/eða dagsyfja virðist gefa góða forspá um síðari greiningu á Alzheimerssjúkdómi, óháð því hvort fólk upplifði einhverja hnignun í vitrænni færni eða ekki. Höfundar komust að þeirri niðurstöðu að hugsanlega væru svefntruflanirnar merki um allra fyrstu stig sjúkdómsins eða hefðu hugsanlega áhrif á þróun hans.

Hvort eru svefntruflanir þá eggið eða hænan?
Eins og áður hefur komið fram missir heili okkar smávegis af massa sínum með vaxandi aldri og telja sumir að sú rýrnun sé orsök breytinga á svefnmystri. En gæti þetta ekki verið á hinn veginn? Er mögulegt að rýrnun heila sé bein eða óbein afleiðing af svefntruflunum? Getur verið að svefntruflanirnar séu merki um fyrstu stig Alzheimerssjúkdóms í þróun eða hafa svefntruflanirnar áhrif á framþróun sjúkdómsins?

Þessum spurningum hefur enn ekki verið svarað og þó tengsl virðist vera fyrir hendi, gefa niðurstöður rannsókna svo sannarlega ekki til kynna beint orsakasamband í aðra hvora áttina.

… og predikun í lokin
Við vitum að regluleg hreyfing (sjá t.d. hér) getur spornað á móti aldurstengdri rýrnun heila. Regluleg hreyfing hefur líka jákvæð áhrif á svefn, nám og minni og regluleg hreyfing er forvörn fyrir Alzheimerssjúkdóm.
Tilviljun? Ég held ekki!

Frekari fróðleikur
Myndband frá futurityvideo á YouTube um áhrif svefntruflana á uppsöfnun amyloid-beta.

Meiri upplýsingar um vísindi svefns frá Harvard háskólahttp://healthysleep.med.harvard.edu/healthy/science

Byggt m.a. á:

-Canessa, N., Castronovo, V., Cappa, S. F., Aloia, M. S., Marelli, S., Falini, A. o.fl. (2010). Obstructive Sleep Apnea: Brain Structural Changes and Neurocognitive Function before and after Treatment. American Journal of Respiratory and Critical Care Medicine, 183(10), 1419-1426.

-Edwards, B. A., O’Driscoll, D. M., Ali, A., Jordan, A. S., Trinder, J. og Malhotra, A. (2010). Aging and Sleep: Physiology and Pathophysiology. Respiratory and critical care medicine, 31(5), 618-633.

-Hannesdottir, K., Snaedal, J., Josefsson, A., Arvidsson, A. og Gislason, T. (2011). Evidence of Sleep Apnea in MCI/Mild Dementia. Alzheimer’s & Dementia: The Journal of the Alzheimer’s Association, 7(4), S172.

-Mander, B. A., Rao, V., Lu, B., Saletin, J. M., Lindquist, J. R., Ancoli-Israel, S. o.fl. (2012). Prefrontal atrophy, disrupted NREM slow waves and impaired hippocampal-dependent memory in aging. Nat Neurosci, advance online publication.

-Roh, J. H., Huang, Y., Bero, A. W., Kasten, T., Stewart, F. R., Bateman, R. J. o.fl. (2012). Disruption of the sleep-wake cycle and diurnal fluctuation of beta-amyloid in mice with Alzheimer’s disease pathology. Science Translational Medicine, 4(150), 150ra122.

-Yaffe, K., Laffan, A. M., Harrison, S. L., Redline, S., Spira, A. P., Ensrud, K. E. o.fl. (2011). Sleep-disordered breathing, hypoxia, and risk of mild cognitive impairment and dementia in older women. JAMA, 306(6), 613-619.

Mynd: Gary Knight, Old man resting, af flick.com (https://www.flickr.com/photos/garryknight/2565215821/)

This entry was posted in Áhættuþættir fyrir heilabilun, Alzheimerssjúkdómur, Heilabilun, Heilinn, Hreyfing, Svefntruflanir and tagged , , , , , , . Bookmark the permalink.

Leave a Reply