Eru tvítyngdir heilar sprækari?

4324502699_34337f4c1a_z

Það hefur ýmsa hagnýta kosti að hafa gott vald á fleiri en einu tungumáli. En það hefur hugsanlega einnig góð áhrif á heilsuna. Rannsóknir benda nefnilega til þess að tvítyngi auki heilahreysti. Með tvítyngi á ég við það þegar fólk talar tvö tungumál reglulega, og talar þau bæði reiprennandi.

Rannsóknir hafa sýnt fram á að heilinn er sveigjanlegur og að margs konar reynsla breytir honum. Reynsla getur til dæmis aukið eða styrkt tengsl milli taugafruma eða stækkað ákveðin svæði heilans. Ef heilinn hefur á þennan hátt notið góðs af jákvæðri reynslu og hans hefur verið vel gætt er hann betur til þess fallinn að mæta efri árunum eða afleiðingum sjúkdóma og áverka. Að búa við það að þurfa að tala reglulega tvö tungumál virðist vera eitt af því sem er til þess fallið að hafa góð áhrif á heilann.Áður var talið að það væri ruglandi fyrir börn að alast upp í tvítyngdu umhverfi. Nú vitum við að það er ekki rétt. Tvítyngd börn geta haldið tungumálunum algerlega aðskildum. Aukinheldur standa þau sig betur en önnur börn á ýmsum prófum, jafnt máltengdum sem og annars konar prófum. Sýnt var fram á þetta fyrir um 50 árum og nýrri rannsóknir hafa staðfest þessar eldri rannsóknir. En fullorðnir njóta líka góðs af tvítyngi. Rannsóknir hafa nefnilega sýnt að fullorðnir tvítyngdir eru betur í stakk búnir en aðrir að standast áhrif taugaskaða. Í einni nýlegri rannsókn var til dæmis sýnt að tvítyngdir stóðust betur áhrif Alzheimers sjúkdómsins en aðrir sem voru sambærilegir að öðru leyti (t.d. menntun, starf, kyn).

Craik, Bialystok og Freedman hafa bent á að (bls. 1726) að það sé sérstaklega áhugavert að rannsaka sveigjanleika heilans hjá tvítyngdum því ,,í langflestum tilvikum verði fólk ekki tvítyngt vegna sérstakra hæfileika á sviði tungumálanáms, heldur vegna þess að aðstæður krefjist þess”. Því er ekki hægt að halda því fram að tvítyngdir einstaklingar standi sig betur á prófum, eða fái síður heilabilunarsjúkdóma á efri árum, af því að þeir hafi frá upphafi haft betri heila.

Hvað skýrir forskot tvítyngdra?

Sú tilgáta hefur komið fram að bæði tungumálin sem hinn tvítyngdi talar séu að einhverju leyti alltaf virk í hinum tvítyngda heila. Þannig verður álagið á athyglinni meira en í þeim sem einungis tala eitt mál. Þetta gæti til dæmis skýrt afhverju tvítyngdir geta verið seinni en þeir sem einungis tala eitt mál að rifja upp orð úr minni. Á hinn bóginn græðir hinn tvítyngdi betri einbeitingarstjórn og betri hugræna hömlun. Svokölluð stýring er betri hjá hinum tvítyngda því hann hefur fengið stöðuga þjálfun í  hugrænum sveigjanleika.

Við vitum að öldrunaráhrifa gætir einkum í framheilanum en það er einmitt sá hluti heilans sem er mikilvægur fyrir stýringu og hugrænan sveigjanleika. Þetta gæti skýrt afhverju aldraðir tvítyngdir virðast standast betur áhrif Alzheimers sjúkdómsins.

Byggt á:

Bialystok, E., Craik, F. I. M. & Luk, G. (2012). Bilingualism: Consequences for mind and brain. Trends in Cognitive Sciences, 16(4), 240-250.

Craik, F. I. M. , Bialystok, E. & Freedman, M. (2010). Delaying the onset of Alzheimer disease: Bilingualism as a form of cognitive reserve. Neurology, 75, 1726-1729.

Richards, M. & Deary, I. J. (2005). A life course approach to cognitive reserve: A model for cognitive aging and development. Annals of Neurology, 58, 617-622.

This entry was posted in Uncategorized. Bookmark the permalink.

Leave a Reply