Villtir fætur: Fótaóeirð

Þegar ég gekk með eldri dóttur mína yndislegu fyrir tæpum 15 árum, fann ég fyrir því í fyrsta sinn að fætur mínir voru engan veginn í takt við restina af líkamanum. Þegar ég lagðist upp í rúm á kvöldin var ég yfirleitt þreytt og tilbúin í svefninn, þ.e. allir líkamhlutar nema fæturnir. Það var eins og fæturnir lytu einhverju öðru lögmáli en aðrir líkamshlutar, þeir voru skyndilega í banastuði og virtust haldnir einhverri óstjórnlegri þörf fyrir villtan dans. Jafnvel þó ég rykkti til fótunum og sparkaði, gerði fótaæfingar þangað til læravöðvarnir titruðu af áreynslu, var þessi furðulega tilfinning áfram til staðar um leið og ég hætti að hreyfa fæturnar. Maðurinn minn leggur ekki í vana sinn að lemja fólk, hvað þá ófríska konu sína, en þessa mánuði var mín eina lausn að vekja hann og biðja hann um að lemja mig nokkrum sinnum í iljarnar með flötum lófa, mjög fast!

Stundum þegar ég horfi á mjög virkt barn reyna án árangurs að sitja kyrrt, ímynda ég mér að því líði í öllum litla kroppnum, svipað og mér hefur stundum liðið í fótunum.

Í fyrstu hvarflaði ekki að mér að þessi skringilegheit mín gætu átt sér heiti. Ég hafði aldrei heyrt um neinn sem leið svona, svo þið getið rétt ímyndað ykkur létti minn þegar ég heyrði að þetta ástand væri bara alls ekki svo sjaldgæft. Raunar er þetta ein algengasta ástæða komu fólks á svefnrannsóknarstofur.

Fótaóeirð
Fótaóeirð (Restless leg syndrome) er þekkt ástand innan taugavísindanna. Einkennin geta komið og farið og geta verið frá því að vera mjög væg til þess að vera nánast fullkomlega óþolandi. Einkennin eru venjulega verst á kvöldin og á næturnar. Þegar þau eru sem verst hafa þau verulega neikvæð áhrif á lífsgæði fólks með því að trufla svefn.

Vandamálið er svo sannarlega ekki nýtt af nálinni, því einkennum fótaóeirðar var fyrst lýst af Thomas Wilis árið 1685.Greiningarskilmerki fyrir fótaóeirð frá Bandarísku heilbrigðismálastofnuninni (NIH) eru:

1. Óþægileg tilfinning í fótum áður en fólk sofnar
2. Ómótstæðileg þörf til að hreyfa útlimi
3. Hreyfing minnkar eða eyðir þessari óþægilegu tilfinningu
4. Tilfinningin kemur aftur um leið og hreyfingin hættir.

Algengi fótaóeirðar er talið vera einhvers staðar á bilinu 1-29% en talsvert mikill munur virðist vera á algengi á milli svæða. Þá virðast konur frekar verða fyrir barðinu á þessu en karlar og algengi vex með auknum aldri.

Samkvæmd mínum heimildum getur fótaóeirð stundum fylgifiskur nýrnabilunar, járnskorts og/eða þungunar og hafa meðferðarúrræði því oft beinst að þessum þáttum. Hér er myndband frá illumistream á YouTube um orsakir fótaóreirðar:

Þeir sem þjást af fótaóeirð hafa ekki alltaf mætt skilningi . Sumir læknar jafnvel þekkja ekki einkennin, taka þau ekki alvarlega eða átta sig ekki á hversu mikil áhrif þau geta haft á lífsgæði fólks. Lyfin sem stundum eru notuð geta haft óþægilegar hliðarverkanir eða hætt að virka eftir stuttan tíma. Margir leita því til annarra með sömu einkenni til þess að skiptast á ráðum um hvernig best sé að meðhöndla einkennin, dæmi um það eru t.d. spjallborð á internetinu fyrir fólk með fótaóeirð og Facebook síða fyrir fólk með fótaóeirð.

Síðustu 15 ára hafa einkenni fótaóeirðar komið og farið í mínu lífi. Fyrstu árin beit ég á jaxlinn og bar harm minn í hljóði en datt svo niður á lausn sem virkar fyrir mig og ég ætla að deila með ykkur: Magnesium duft sem leyst er upp í vatni. Halelúja – einn skammtur fyrir svefninn og fæturnir sofna um leið og hinir líkamshlutarnir!

Mynd: frá Jill á Flicr

Byggt á:

Natarajan, R. (2010). Review of periodic limb movement and restless leg syndrome. Journal of Postgraduate Medicine. 56, 157-162.

This entry was posted in Fótaóeirð and tagged , , , . Bookmark the permalink.

Leave a Reply