Gefum heilanum gaum! Aðlögunahæfni heilans

Brynja Björk Magnúsdóttir, Ph.D. sálfræðingur sálfræðiþjónusta LSH -Grensási
Brynja Björk Magnúsdóttir, Ph.D.
sálfræðingur
sálfræðiþjónusta LSH -Grensási
„Heilinn látti mig gera þetta” var svar dóttur minnar þegar henni var bent á hegðun sem ekki var talin æskileg. Móðirin átti erfitt með að rökræða þetta enda hafði dóttirin nokkuð til síns máls. Heili fjögurra ára barns á eftir að taka út dágóðan þroska og læra af umhverfi sínu. Meðal annars má búast við að ákveðnar taugabrautir styrkist eftir því sem hún heyrir oftar óreglulegu sögnina „lét” og því læri heilinn að nota þá beygingarmynd í stað hinnar reglulegu. Auk þess eiga ennisblöðin eftir að þroskast allt fram á fullorðinsár en þau hafa meðal annars það hlutverk að hamla hegðun sem talin er óæskileg í umhverfi barnsins, hegðun sem oft á tíðum er stýrt af tilfinningum okkar. Heili barns býr því yfir ótrúlegum hæfileika til að aðlagast umhverfi sínu.

Lengi vel var talið að heili fullorðinna væri lítt sveigjanlegur og missti hæfnina til að aðlagast umhverfinu með aldrinum. Sýnt hefur verið fram á að svo er ekki. Heilann má sveigja til fram eftir öllum aldri og ætti í raun að leggja jafn ríka áherslu á heilaleikfimi og líkamsæfingar. Rannsóknir á síðustu árum hafa sýnt fram á að breytingar verða á heila okkar við margvíslega hugarþjálfun. Sem dæmi þá virðist regluleg iðkun athafna sem reyna á hugann og ögra honum geta hægt á heilahrörnun þegar árin færast yfir. Að auki virðist hreyfing, sér í lagi loftháð þjálfun, hafa þau áhrif að mælanleg stækkun verður meðal annars á svokölluðum dreka, svæði sem hefur með minningar okkar að gera.

Heilinn er sveigjanlegur og hefur hæfni til að aðlagast umhverfi sínu alla ævi, og því er mikilvægt að hlúa vel að honum.

This entry was posted in Alþjóðleg heilavika 2013. Bookmark the permalink.

Leave a Reply