Græneygða skrímslið: Óþelló heilkenni

Dauði Desdemónu eftir Delacroix
Dauði Desdemónu eftir Delacroix
Í leikriti sínu, Óþelló, lýsir Shakespeare afbrýðissemi sem græneygðu skrímsli. Það er góð lýsing á tilfinningu sem getur haft þann eyðileggingarmátt sem afbrýðissemi hefur. Í leikritinu myrðir Óþelló eiginkonu sína, Desdemónu, af því að hann telur að hún sé honum ótrú. Af þessum sökum hefur ofsafengin afbrýðissemi sem á sér ekki stoð í raunveruleikanum verið kölluð Óþelló heilkenni. Önnur heiti hafa einnig verið notuð, svo sem sjúkleg afbrýðissemi.
Afbrýðissemi er auðvitað sammannleg og eðlileg tilfinning. En eins og aðrar tilfinningar getur afbrýðissemi orðið til trafala og hún getur jafnvel orðið hættuleg. Með því að hafa greiningarskilmerki fyrir geðröskun sem kölluð er hugvilluröskun með afbrýðissemi (delusional disorder-jealous type) í greiningarhandbók sinni hefur bandaríska geðlæknafélagið viðurkennt þetta.

Heilabilun og Óþelló heilkennið
Sjúkleg afbrýðissemi getur komið fram í Alzheimers sjúkdómi en einnig í öðrum heilabilunarsjúkdómum. Fólk með Alzheimers sjúkdóm getur til dæmis ásakað maka sinn um að eiga elskhuga í næsta húsi og þetta getur virst mjög rökrétt í huga sjúklingsins. Ef sjúklingurinn er til dæmis hættur að þekkja fólk í sjón vegna sjúkdómsins en sér makann tala vinsamlega og jafnvel faðma og kyssa einhvern sem sjúklingurinn þekkir ekki ályktar hann sem svo að makinn sé ótrúr. Það þarf auðvitað ekki að taka fram að sjúkleg afbrýðissemi getur valdið makanum sem sakaður er um framhjáhald mikilli vanlíðan.

Parkinson sjúkdómur og Óþelló heilkennið
Það þarf ekki hugræna skerðingu, eins og er til staðar í heilabilun, til að sjúklingar þrói með sér Óþellós heilkenni. Nokkrar fræðigreinar hafa birst um sjúklega afbrýðissemi hjá Parkinson sjúklingum sem ekki hafa neina hugræna skerðingu. Því hefur að auki verið haldið fram að þetta vandamál sé algengara hjá þessum sjúklingum en áður var talið. Hjá Parkinson sjúklingum er talið að Óþelló heilkennið sé aukaverkun af þeim lyfjum sem notuð eru til að meðhöndla sjúkdóminn. Lyfin auka virkni taugaboðefnisins dópamíns í heila sjúklinganna, en of lítið er af dópamíni í heila Parkinsonsjúklinga. Þessi lyf tengjast einnig öðrum breytingum í hegðun svo sem eins og erfiðleikum með hvatastjórn. Þannig getur þessir sjúklingar til dæmis misst hömlur í kynferðismálum eða orðið spilafíkn að bráð. Einnig geta komið fram ofskynjanir og ranghugmyndir, svo sem eins og þær að makinn sé ótrúr. Þessar óheppilegu aukaverkanir minnka eða hverka þegar lyfjagjöf er hætt.Hvaða heilasvæði tengjast Óþelló heilkenninu?
Stungið hefur verið upp á að trufluð starfsemi í hægra framheilablaði geti valdið Óþelló heilkenninu. Nýlega tilviksrannsókn (þ.e. rannsókn á einum sjúklingi) hefur verið nefnd þessu til stuðnings. Narumoto og samstarfsmenn hans í Japan sögðu frá 61 árs gamalli konu, sem ekki hafði heilabilun. Fjarlægt var æxli úr hægri framheila hennar, rétt fyrir ofan augntóttirnar. Í kjölfarið þróaði hún með sér geðræn vandamál, þar með talið Óþelló heilkenni. Það veikir mjög röksemdir höfunda að afbrýðissemin kom upp mörgum árum eftir aðgerðina. Auk þess hefur sjúklegri afbrýðissemi verið lýst hjá sjúklingum sem hafa sjúkdóma í heila þar sem skaðinn er ekki afgerandi á einu heilasvæði umfram öðru. Einnig hefur þessu vandamáli verið lýst hjá sjúklingum með skaða í vinstra heilahveli. Það er því, í þessu tilviki eins og svo oft áður, að ekki er auðvelt að tengja saman klínískt vandamál, í þessu tilviki sjúklega afbrýðissemi, og skaða á ákveðnum stað í heila. En það vandamál er efni í annan pistil!

Stuðst var við:

Georgiev, D., Danieli, A., Ocepek, L., Novak, D., Zupančič-Križnar, N., Trošt, M. & Pirtošek, Z. (2010). Othello syndrome in patients with Parkinson’s disease. Psychiatria Danubina, 22(1), 94–98.

Graff-Radford, J., Ahlskog, J. E., Bower, J. H. & Josephs, K. A. (2010). Dopamine agonist and Othello´s syndrome. Parkinsonism and Related Disorders, 16, 680-682.

Narumoto, J., Nakamura, K., Kitabayashi, Y. & Fukui, K. (2006). Othello Syndrome Secondary to Right Orbitofrontal Lobe Excision. Journal of Neuropsychiatry and Clinical Neurosciences 18(4), 560-561.

Mynd fengin af Wikimedia Common: Eugène Delacroix – Dauði Desdemónu

This entry was posted in Uncategorized. Bookmark the permalink.

Leave a Reply