Háþrýstingur og heilahreysti

Við hvern hjartslátt þrýstist blóð út í slagæðarnar og myndar þrýsting á æðaveggina, þ.e. blóðþrýsting. Ef þessi þrýstingur hækkar og helst hár í langan tíma, getur það valdið margvíslegum skemmdum í líkamanum. Háþrýstingur er venjulega einkennalaus og því getur þú þjáðst af honum í mörg ár án þess að vita af því. Hægt og hljótt getur hann því smám saman valdið skemmdum í hjartanu, æðunum, nýrunum og já … líka heilanum. Háþrýstingur er því dauðans alvara.


Áhrif á heila
Ef þú ert miðaldra eða eldri ættir þú að láta kanna blóðþrýstinginn reglulega og bregðast við án tafar ef hann er hækkaður. Ómeðhöndalður háþrýstingur getur nefnilega hægt og hljótt stuðlað að skemmdum í heila, löngu áður en einkennin gera vart við sig. Háþrýstingur hefur verið tengdur við síðari tíma hugræna skerðingu, æðavitglöp og mögulega Alzheimers sjúkdóm.

aedarHáþrýstingur hefur áhrif á formgerð heila, því margar rannsóknir hafa sýnt að eldra fólk með langvarandi háþrýsting, hefur meiri rýrnun í heilavef og meiri skemmdir í hvíta efni heilans, en fólk með eðlilegan/æskilegan blóðþrýsting. Sumar rannsóknir hafa gefið til kynna að háþrýstingurinn hafi þessi áhrif jafnvel þó honum sé haldið niðri með lyfjum. Ein rannsókn á 243 einstaklingum sem voru á aldrinum 73-94 ára við andlát sýndi að hækkaður blóðþrýstingur um miðjan aldur tengdist meingerð Alzheimerssjúkdóms í heila (skellur og flækjur). Önnur rannsókn fylgdi fólki eftir í 21 ár og sýndi að hækkuð efri mörk blóðþrýstings á miðjum aldri jók hættuna á Alzheimerssjúkdómi marktækt síðar á ævinni.

Áhrif á hugarstarf
Margar rannsóknir hafa sýnt að langvarandi háþrýstingur um miðja ævina tengist vitrænni skerðingu (cognitive impairment) síðar á ævinni. Ein rannsókn tók saman niðurstöður 10 langtímarannsókna sem allar skoðuðu sambandið á milli háþrýstings og vitrænnar færni. Höfundarnir komust að þeirri niðurstöðu að langflest benti til þess að hækkaður blóðþrýstingur gæti spáð fyrir um síðari hrörnun í hugarstarfi. Margar þversniðsrannsóknir (cross-sectional) hafa sýnt sömu niðurstöður.

Sumar rannsóknirnar sýndu tengsl á milli háþrýstings og hnignunar í vitrænni færni, óháð því hvort háþrýstingurinn var meðhöndlaður með lyfjum eða ekki, en aðrar gefa til kynna að ef hægt sé að ná blóðþrýstingi niður með lyfjagjöf, hafi hann enginn áhrif á hugarstarf. Auðvitað hlýtur samt að vera best að halda blóðþrýstingnum í æskilegum farvegi með því að ástunda holla lifnaðarhætti. Regluleg hreyfing og hugleiðsla hjálpa til við að halda háþrýstingi í skefjum.

Hér er myndband af YouTube sem heitir “The Silent Killer” framleitt af Blood Pressure Canada http://hypertension.ca/bpc/, um fylgifiska háþrýstings:

Visindavefurinn: Hver er eðlilegur blóðþrýstingur?: http://www.visindavefur.is/svar.php?id=4614

Byggt á m.a.:
Kivipelto, M., Helkala, E., Laakso, M., Hanninen, T., Hallikainen, M., Alhainen, K. o.fl. (2001). Midlife vascular risk factors and Alzheimer’s disease in later life: longitudinal, population based study. BMJ, 322(7300), 1447 – 1451.

Petrovitch, H., White, L. R., Izmirilian, G., Ross, G. W., Havlik, R. J., Markesbery, W. o.fl. (2000). Midlife blood pressure and neuritic plaques, neurofibrillary tangles, and brain weight at death: the HAAS. Neurobiology of Aging, 21(1), 57-62.

Raz, N., Rodrigue, K. M. og Acker, J. D. (2003). Hypertension and the brain: Vulnerability of the prefrontal regions and executive functions. Behavioral Neuroscience, 117(6), 1169-1180.

Skoog, I. and Gustafson, D. (2006). Update on hypertension and Alzheimer’s disease. Neurological Research, 28, 605-611.

This entry was posted in Áhrif sjúkdóma, Háþrýstingur and tagged , , . Bookmark the permalink.

Leave a Reply