Heilaleikfimi á hlaupabrettinu

Ef þú ert miðaldra eða eldri og finnst að aldurinn sé farinn að hafa áhrif á vitsmunastarfið skaltu ekki örvænta strax. Það er nefnilega til sáraeinföld lausn sem getur gert gæfumuninn – stundaðu reglulega líkamsrækt af kappi!


Í pistlinum Þolþjálfun verndar heilann gegn áhrifum öldrunar var fjallað um áhrif líkamsræktar á rúmmál heila fullorðins fólks. Þar kom fram að líkamsrækt hefur áhrif á formgerð heila og því er nærtækt að ætla að hún geti líka haft áhrif á starfsemi þessa sama heila. Aldursbundin rýrnun er mismikil eftir staðsetningu og að sama skapi nær aldurstengd hrörnun í vitsmunastarfi ekki jafnt yfir allar tegundir vitsmunastarfs. Sú geta sem helst dvínar með aldrinum er hraði hugsunar, atburðaminni og stýrifærni (eins og skipulagning, vinnsluminni og ýmis konar hömlun).

Þjálfun þarf að standa yfir í 30 mínútur eða lengur
Rannsóknir gefa til kynna að líkamsrækt hafi mikil og jákvæð áhrif á vitsmunalega færni hjá þeim sem eru 60 ára og eldri, sérstaklega á færni sem byggir á starfsemi framheila og kallast stýrifærni. Jákvæð áhrif hreyfingar ná þó einnig til hraða hugsunar og minnis. Hversu mikil áhrifin eru, virðist vera undir því komið hvers konar æfingar eru stundaðar og hversu lengi þær vara.

Heilaleikfimi
Heilaleikfimi
Samantekt á niðurstöðum 18 rannsókna sem allar skoðuðu samband þolþjálfunar og vitsmunafærni, sýndi að þjálfunin hafði marktæk áhrif á vitræna færni, óháð því hvers konar hugarstarf var um að ræða og óháð því hvers konar líkamsrækt var stunduð. Áhrifin voru mest á stýrifærni. Niðurstöðurnar sýndi einnig að þeir sem stunduðu bæði þol- og styrkarþjálfun sýndu meiri framfarir í verkefnum sem reyndu á vitsmunafærni, heldur en þeir sem einungis stunduðu þolþjálfun. Engin munur sást á milli hópa sem höfðu stundað líkamsrækt í 1-3 mánuði og 4-6 mánuði, en besti árangurinn var hjá fólki sem hafði æft í 6 mánuði eða lengur. Þjálfunarlotur sem stóðu yfir í 30 mínútur eða skemur höfðu engin áhrif á vitsmunalega færni.

að mestu byggt á:
-Kramer, A. F., Hahn, S., Cohen, N. J., Banich, M. T., McAuley, E., Harrison, C. R. o.fl. (1999). Ageing, fitness and neurocognitive function. Nature, 400 (6743), 418-419.
-Colcombe, S. og Kramer, A. F. (2003). Fitness effects on the cognitive function of older adults. Psychological Science, 14 (2), 125-130.

This entry was posted in Uncategorized. Bookmark the permalink.

One Response to Heilaleikfimi á hlaupabrettinu

  1. Pingback: Háþrýstingur og heilahreysti - Heilahreysti.isHeilahreysti.is

Leave a Reply