Heilaskaði og heilabilun í bíó

dvd spólurHeilaáverkar og heilabilun leiða gjarnan til dramatískra og sérkennilegra breytinga í hugsun og persónuleika. Tilfinningalegt álag ættingja við að horfa upp á ástvini sína ganga í gegnum löng og erfið veikindi er þar að auki oft býsna mikið. Það kemur því kannski ekki á óvart að það hefur þótt eftirsóknarvert að gera þessu efni skil í kvikmyndum.

Heilaskaði í kvikmyndum

,,Maðurinn þinn var ótrúlega heppinn frú Turner. Byssuskotið sem hann fékk í höfuðið olli lágmarksskaða. Það lenti nefnilega í framheilanum. Það er eini hluti heilans sem er næstum óþarfur. Ég meina, ef þú færð skot í höfuðið er þetta eina rétta leiðin til að gera það.“

Þessi spaugilega tilvitnun er úr myndinni Regarding Henry (1991) en þar leikur Harrison Ford forhertan lögmann sem verður fyrir því að fá byssuskot í höfuðið. Það undarlega er að hann verður betri maður fyrir vikið! Samkvæmt lækninum var Henry nefnilega svo stálheppinn að kúlan lenti í framheilanum.
Einu sinni var framheilinn mönnum vissulega nokkur ráðgáta og var af sumum jafnvel ekki talinn hafa neitt sérstakt hlutverk. Á þeim tíma sem kvikmyndin um Henry var gerð vissu menn þó betur. Þá voru þær hræðilegu afleiðingar sem skaði í framheila getur haft löngu þekktar. Skaði í framheila veldur oft miklum persónuleikabreytingum og oft verða einnig breytingar í vitsmunalegri getu Ég hef aldrei séð þessar breytingar verða til góðs. Þvert á móti veldur skaði í framheila alla jafna mikilli skerðingu á lífsgæðum.

Margar aðrar mýtur og rangfærslur sjást í bíó og sjónvarpi sem viðheldur og kyndir undir þeim. Í nýlegri breskri rannsókn um þekkingu almennings á heilaskaða sögðu næstum 40% þátttakenda að þekking þeirra um heilaskaða kæmi einkum úr kvikmyndum og sjónvarpi. Næstum 30% þátttakenda töldu að minnistap gæti lagast með öðru höfuðhöggi! Þessi furðulega hugmynd sést líka stundum í bíó, og þá erum við ekki bara að tala um teiknimyndir. Rannsóknir hafa sýnt að margir, og þá eru handritshöfundar ábyggilega meðtaldir, telja að þegar sjúklingur vaknar úr dái (coma), sé hann algerlega eðlilegur, drífi sig bara fram úr og muni allt sem fyrr (t.d. Blind Horizon frá 2003).

Minnistap, og þá einkum altækt minnistap, hefur verið nokkuð vinsælt umfjöllunarefni í kvikmyndum síðan þöglu myndirnar voru og hétu. Nýjar vinsælar myndir um þetta efni eru til dæmis The Eternal Sunshine of the Spotless Mind (2004), 50 First Dates (2004) og The Bourne Identity (2002). Árið 2003 fjallaði breski taugasálfræðingurinn Sallie Baxendale um hvernig minnistapi er lýst í kvikmyndum. Í grein hennar kom fram að lýsingar á minnistapinu eru í litlu eða engu samræmi við raunveruleikann. Á þessu eru því sem betur fer undantekningar og þar er kvikmyndin Memento (2000) sennilega besta dæmið. Dorí í Nemó litla er einnig gott dæmi um raunsanna lýsingu á minnistapi.

Heilabilun í kvikmyndum

Kurt Segers er meðal þeirra sem hefur skoðað hvernig heilabilunarsjúkdómum eru gerð skil í bíó. Niðurstaðan er sú að hugrænum vanda (t.d. minnistapi) eru alla jafna ekki gerð góð skil. Greiningaraðferðum er sjaldan lýst og ef svo er, er það ekki gert á réttan hátt. Í kvikmyndinni Söngur Martins (En sång för Martin, 2001) greinir taugalæknir til dæmis heilabilun með því að horfa á mynd af heilanum. Það er ekki gert í raunveruleikanum. Í þessu samhengi er vert að nefna að rannsóknir á þekkingu almennings á Alzheimers sjúkdómnum hafa sýnt að almenningur telur heilaskann vega þyngra í greiningu heilabilunar en það í raun gerir. Heilaskann er mikilvægt en Alzheimers sjúkdómurinn sést hinsvegar ekki með beinum hætti á því. Í sömu kvikmynd er sjúklingnum Martin, sagt að ,,ást og andleg leikfimi sé besta meðferðin” og ráðið frá því að taka lyf.

Að lokum

Auðvitað getur vísindasamfélagið ekki stjórnað kvikmyndaiðnaðinum og ætti heldur ekki að gera það. Markmið kvikmynda er í flestum tilvikum fyrst og fremst að skemmta okkur en ekki að fræða eða gefa raunverulega mynd af heilaáverkum, heilabilun, geðsjúkdómum eða ýmsum læknisfræðilegum inngripum. En um leið viðhalda kvikmyndir bæði ranghugmyndum og fordómum sem er miður.
Mér tekst ágætlega að skilja taugasálfræðinginn eftir heima þegar ég fer í bíó og get notið kvikmyndanna þó þær séu óraunhæfar. Það er jú ekki alltaf hægt að vera í vinnunni. En ef ég mætti velja myndi ég samt kjósa að raunveruleikinn fengi oftar að ráða ferðinni. Það myndi, held ég, hreint ekki draga úr hinum dramatísku áhrifum. Raunveruleikinn er nefnilega nægilega sláandi og þarf ekki aðstoðar við.
Næst þegar þú sérð kvikmynd þar sem fjallað er um afleiðingar heilaskaða eða heilasjúkdóma er gott að hafa í huga að sagan er mikilvægari en vísindaleg nákvæmni og flestir handritshöfunda kæra sig kollótta og leggjast ekki í miklar rannsóknir svo að persónurnar verið sem raunverulegastar. Kvikmyndir eru, með öðrum orðum, ekki góðar heimildir um sjúkdóma og er ekki ætlað að vera það.

Íslenskt leikið efni um heilabilun

Aðalsöguhetjan í kvikmynd Friðriks Þórs Friðrikssonar, Mömmu Gógó er með Alzheimers sjúkdóm. Kristbjörg Kjeld leikur aðalhlutverkið af mikilli snilld og nær vel að koma til skila öryggisleysi og þeirri ringulreið sem hlýtur að ríkja í tilveru þeirra sem muna lítið sem ekkert og eiga því örðugt með að átta sig á samhengi hlutanna í daglegu lífi.
Kristbjörg Kjeld fór einnig á kostum í heimildamyndinni Hugarhvarf sem fjallar um Alzheimers sjúkdóminn.
Hér má sjá hvaða bókasöfn eiga eintak af Hugarhvarfi.

Mynd: http://www.flickr.com/photos/fragglerawker/1505041769/sizes/z/in/photostream/

Nokkrar heimildir:

Baxendale, S. (2003). Epilepsy at the movies: possession to presidential assassination. The Lancet, 2(12), 764-770.

Baxendale, S. (2004). Memories aren’t made of this: amnesia at the movies. British Medical Journal, 329 (7480), 1480-1483.

Gerritsen, D. L, Kuin, Y. og Nijboer, J. (2013). Dementia in the movies:the clinical picture. Aging & Mental Health,

Seger, K. (2007). Degenerative dementia and their medical care in the movies. Alzheimer´s Disease and Associated Disorders, 21(1), 55-59.

Wijdicks, E. F. M. og Wijdicks, C. A. (2006). The portrayal of coma in contemporary motion pictures. Neurology 66(9), 1300-1303.

This entry was posted in Uncategorized. Bookmark the permalink.

Leave a Reply