Heilbrigð gleymska eða ……..?

Ekki gleyma aðAllir kvarta undan minninu, en enginn kvartar undan dómgreindinni

François de La Rochefoucauld, 17. öld

 

Ein algengasta kvörtun þeirra sem leita til taugasálfræðinga er að minnið hafi versnað. Fólk á öllum aldri kvartar undan minnistapi og sumir, jafnvel þeir sem ekki hafa náð miðjum aldri, hafa áhyggjur af því að fá Alzheimers sjúkdóm. Svo eru aðrir sem hafa áhyggjur af því hafa fengið heilaskaða eftir hálshnykk eða minniháttar höfuðhögg.

Fólk hefur stundum býsna óraunhæfar hugmyndir um hvernig eðlilegt minni eigi að vera. Það gerir þá kröfu að minnið sé næstum fullkomið og óskeikult. Það er minni okkar ekki. Eðlilegt minni er óáreiðanlegt og minningar skolast auðveldlega til.

Fólk sem kvartar um minnistap á einnig erfitt með að aðgreina minnisvanda og annars konar erfiðleika, til dæmis þá sem tengjast flókinni athygli og einbeitingu. Stundum ruglar fólk einnig saman máltruflunum og minnistapi. Með öðrum orðum þá er sú tilhneiging nokkuð almenn að kalla allan hugrænan vanda minnistap. François de La Rochefoucauld, sem vitnað var í hér í upphafi, hafði svo sannarlega á réttu að standa!

Þeir sem kvarta um minnistap eða slaka einbeitingu segja oft frá minniháttar afglöpum eins og að gleyma að koma við í búð á leið heim úr vinnu eða að hafa opnað ísskápinn án þess að muna hvað ætlunin var að ná í. Sum okkar hafa jafnvel sett sólkrem á tannburstann eða reynt að opna útidyrnar með bíllyklunum. Í þessum tilvikum eru athafnir framkvæmdar á annan hátt en ætlað var og því mætti ef til vill kalla þetta verkvillur. Þessi mistök endurspegla skerta athyglisstýringu eða truflun í framvirku minni fremur en getu til að læra og muna nýja hluti. Þess vegna stendur fólk með þessar kvartanir sig oft eðlilega á minnisprófum þar sem lögð er áhersla á getu til að læra og rifja upp nýjar upplýsingar.

Sem betur fer eru svona athyglisglöp, eða verkvillur, oftast bara til óþæginda. Stundum eru þau spaugileg. Í versta falli fer maður hjá sér og aðrir hlæja að óförum okkar. Hinsvegar geta svona “minniháttar“ mistök haft mjög afdrifaríkar afleiðingar. Flugslys, slys í kjarnorkuverum, mistök á sjúkrahúsum og alvarleg umferðarslys hafa stundum verið rakin til þess að einbeitingin bregst og fólk gerir eitthvað af gömlum vana þegar það á ekki við.

Einu sinni gerði ég rannsókn á algengi verkvillna með aðstoð 189 heibrigðra Íslendinga á ýmsum aldri. Þátttakendur voru beðnir um að skrá mistökin í dagbók í eina viku. Niðurstaðan var sú að að meðaltali gerðu þátttakendur rúmlega 6 verkvillur á viku hverri, og alla jafna voru þær færri um helgar og að kvöldlagi þegar annir voru minni og því minna sem truflaði einbeitinguna. Væntanlega er þetta vanmat því líklegt má telja að gleymst hafi að skrá eitthvað niður!

Svona mistök, eða verkvillur, gerum við öll og oft er þetta kallað að vera utan við sig. Þeir sem hafa fengið höfuðáverka eða hálshnykk eru hinsvegar stundum fljótir að eigna slysinu, og hugsanlegum heilaskaða, þessi mistök. Sama gildir um þá sem hafa fjölskyldusögu um Alzheimer sjúkdóm. Þegar aldurinn færist yfir óttast fólk að svona glappaskot séu til komin vegna snemmkominnar hrörnunar. Svo næst þegar þú klúðrar einhverju og finnst þú vera gleyminn skaltu staldra við og íhuga hvort það séu ekki til líklegri skýringar á verkvillunum en alvarlegir sjúkdómar. Verkvillur og venjulega gleymska eru, þrátt fyrir allt, algengari en til dæmis Alzheimers sjúkdómur.

Fjallað var um ofangreinda rannsókn í Guardian: http://www.guardian.co.uk/science/2007/jul/29/1

Mynd: http://www.flickr.com/photos/martijnmunneke/2610271771

This entry was posted in Uncategorized. Bookmark the permalink.

Leave a Reply