Heilinn rýrnar með aldrinum

Líf mitt, mælt í árum, nálgast töluna 50 á ógnarhraða. Ábyggilega þess vegna fer um mig ónotahrollur við að lesa um áhrif aldurs á heilann. Það er staðreynd, heilinn rýrnar með aldrinum. Mér hefur alltaf fundist ég þurfa sárlega á hverri einustu heilafrumu að halda, bara til þess að komast klakklaust í gegnum hversdaginn. Um daginn tók ég til dæmis með mér könnu með appelsínusafa og óhreint glas úr borðstofunni til að ganga frá í eldhúsinu. Næst þegar ég átti leið um eldhúsið tók ég eftir því að kannan með appelsínusafanum stóð í vaskinum. Þegar ég opnaði svo hurðina á ísskápnum til þess að setja könnuna á sinn stað, blasti óhreina glasið sem átti að fara í vaskinn við mér. Úff, ætli þetta sé ekki til marks um að ellin sé búin að læsa köldum krumlum sínum um heilann á mér?

Heilinn byrjar að rýrna strax á þrítugsaldri
Heilinn samanstendur af gráu og hvítu efni. Heilabörkurinn er ysti hluti heilans, um 2-5 mm á þykkt og er oft kallaður gráa efnið. Innan við gráa efnið liggur svo hvíta efnið sem dregir nafn sitt af hvítu slíðri sem umlykja taugaþræði á þessu svæði. Gráa efnið byrjar mun fyrr að hrörna heldur en það hvíta en það þynnist jafnt og þétt frá 20 ára aldri. Mesta breytingin verður á ákveðnum svæðum í fremri hluta framheila (prefrontal cortex), en framheilinn gegnir mikilvægu hlutverki til dæmis í skipulagi, sjálfstjórn, rökhugsun, vinnsluminni, frumkvæði, tilfinningalífi og félagslegri aðlögunarhæfni. Hvíta efni heilans heldur sér mun lengur en gráa efnið og byrjar ekki að rýrna fyrr en um fertugsaldurinn. Rýrnun í hvíta efninu er þó hraðari en í heilaberki og verður því á endanum meiri hjá elsta aldurshópnum. Meginhlutverk hvíta efnisins er að flytja boð hratt og örugglega á milli mismunandi hluta heilans.


Í innanverðu gagnaugablaði liggur svo drekinn (hippocampus) sem gegnir lykilhlutverki í starfsemi minnis og virðist sérlega viðkæmur fyrir áhrifum aldurs. Rannsóknir sýna að rúmmál dreka dregst lítillega saman fram að 50 ára aldri en hraði hrörnunar eykst eftir það.

Hraði rýrnunar heilavefjar virðist fara stigvaxandi með hækkandi aldri og hefur ein rannsókn t.d. sýnt að á milli 30 og 90 ára aldurs minnkar rúmmál dreka að meðaltali um 35%, hvíta efnisins um 26% og heilabarkar um 14%.

Er veruleg hnignun í heilastarfsemi þá óhjákvæmilegur fylgifiskur öldrunar?

Nei, nefnilega ekki!
Enda þekkja flestir einhvern sem náð hefur háum aldri án þess að vitræn færni hafi látið undan síga að nokkru marki. Ofangreindar tölur eru meðaltöl mælinga á heilum margra einstaklinga en breytileiki í vitrænu starfi er meiri hjá eldri aldurshópum heldur en hjá þeim yngri. Ýmislegt bendir því til þess að áhrif aldurs á heila og vitræna færni heilbrigðra einstaklinga séu ofmetin í rannsóknum.Sá lífstíll sem við kjósum okkur hefur mjög mikið um það að segja hvernig okkur gengur að varðveita þetta mikilvægasta líffæri okkar eftir því sem við eldumst, þannig að það er að stórum hluta í okkar eigin höndum hvernig við höldum í þær gráu fram í háa elli.

Mér er sko mikið létt, er búin að ákveða að afglöp mín sem ég minntist á í byrjun séu örugglega ekkert vegna þess að ég hafi misst heilafrumur í stórum stíl. Fullt af fullkomlega heilbrigðu ungu fólki lendir í svipuðu, eins og sjá má á þessum pistli, “I forget everything” (linkur). Þegar ég er búin að skera niður gulrætur og fara út að hlaupa, ætla ég að fara að lesa mér til um áhrif lífsstíls á heilahreysti, sem er fróðleikur sem ég mun auðvitað deila með ykkur lesendur góðir í næstu pistlum mínum!

Að mestu byggt á:
-Courchesne, E., Chisum, H. J., Townsend, J., Cowles, A., Covington, J., Egaas, B. o.fl. (2000). Normal brain development and aging: Quantitative analysis at in vivo MR imaging in healthy volunteers. Radiology, 216 (3), 672-682.
-Ge, Y., Grossman, R. I., Babb, J. S., Rabin, M. L., Mannon, L. J. og Kolson, D. L. (2002). Age-related total gray matter and white matter changes in normal adult brain. Part I: volumetric MR imaging analysis. American Journal of Neuroradiology, 23 (8), 1327-1333.
-Jernigan, T. L., Archibald, S. L., Fennema-Notestine, C., Gamst, A. C., Stout, J. C., Bonner, J. o.fl. (2001). Effects of age on tissues and regions of the cerebrum and cerebellum. Neurobiology of Aging, 22 (4), 581-594.
-Hedden, T. og Gabrieli, J. D. E. (2004). Insights into the ageing mind: a view from cognitive neuroscience. Nature Reviews Neuroscience, 5 (2), 87-96.

This entry was posted in heili, Líkamsrækt and tagged , , , , , , . Bookmark the permalink.