Getur hófleg áfengisneysla haft jákvæð áhrif á starfsemi heilans?

Langvarandi ofneysla áfengis getur haft í för með sér rýrnun heilavefs, skerðingu á vitrænni færni og heilabilun. Á hinn bóginn virðist hófleg neysla áfengis geta haft jákvæð áhrif á heilastarfsemi.

Breytingar á formgerð heila
PictureNiðurstöður rannsókna á langvarandi ofneyslu áfengis hafa gefið til kynna að neyslan geti m.a. haft í för með sér breytingar á stærð, fjölda og lögun taugafruma og fækkun taugamóta . Niðurstöður rannsókna á hóflegri neyslu áfengis gefa aftur á móti misvísandi niðurstöður. Sumar rannsóknir sýna að hvorki núverandi áfengisneysla né það magn áfengis sem búið er að neyta yfir ævina hafi tengsl við rýrnun heilavefjar hjá hófdrykkjufólki. Aðrar rannsóknir hafa sýnt að rýrnun heilavefjar sé mest áberandi hjá þeim sem misnota áfengi og minnst hjá þeim sem nota það alls ekki, þ.e. þarna sé um línulegt samband að ræða þar sem heilavefs-rýrnun er einnig til staðar hjá þeim hófsömu, en magn rýrnunar fari eftir umfangi neyslunnar.

Hófleg neysla virðist geta haft jákvæð áhrif á starfsemi hjarta og æðakerfis. Sumir vísindamenn halda því fram að bæði æðaheilabilun og Alzheimerssjúkdómur séu afleiðing af veikluðu æðakerfi og því kemur ef til vill ekki á óvart að hófleg áfengisneysla geti haft áhrif bæði á vitræna færni og þróun heilabilunarsjúkdóma.

Vitræn færni, öldrun og áfengisneysla
"L'Absinthe", par Edgar Degas (1876)Fjöldi rannsókna staðfesta að áralöng misnotkun áfengis hafi neikvæð áhrif á vitræna færni fólks. Hið gagnstæða virðist gilda um vitræna færni hófdrykkjufólks, því sumar rannsóknir sýna að eldra fólk sem neytir áfengis í hófi sýni betri frammistöðu á prófum sem meta vitræna færni, en bæði fólk sem hefur notað áfengi í óhófi og fólk sem aldrei hefur notað áfengi. Sumar rannsóknir sýna þó þessi jákvæðu áhrif hóflegrar áfengisneyslu einungis hjá konum, aðrar rannsóknir hafa sýnt fram á jákvæð áhrif hjá körlum líka, en áhrifin virðast veikari.

Áfengisneysla og Alzheimerssjúkdómur
Óhófleg áfengisneysla virðist hafa neikvæð áhrif á þróun Alzheimerssjúkdómsins, því rannsókn sýndi að fólk með væga vitræna skerðingu (oft undanfari Alzheimerssjúkdóms) sem neytti áfengis í óhófi var líklegra til að greinast með Alzheimerssjúkdóm að tveimur árum liðnum, heldur en fólk sem drakk í hófi eða alls ekki. Misnotkun áfengist hefur einnig verið tengd hraðari þróun sjúkdómsins hjá Alzheimerssjúklingum.

Samantekt á niðurstöðum 23 rannsókna sem allar skoðuðu tengsl á milli heilabilunar og áfengisneyslu sýndi að þeir sem neyttu áfengis í hófi á fullorðinsaldri voru í minni hættu á að þróa með sér Alzheimerssjúkdóm síðar á lífsleiðinni en þeir sem annað hvort drukku í óhófi eða drukku ekki neitt.

Já það er vandlifað!
En hvað má þá áfengisneysla vera mikil til þess að fara ekki yfir mörkin á milli hóflegrar og óhóflegara neyslu? Því er vandsvarað því vísindasamfélagið hefur ekki komið sér saman um staðal sem segir til um hvað teljist hófleg eða óhófleg áfengisneysla og afar mismunandi er eftir rannsóknum hvaða skammtastærðir miðað er við þegar fólki er raðað í mismunandi hópa. Algjörlega óvísindaleg athugun mín á því hvað teljist hófdrykkja í rannsóknum segir mér að eftir því sem sunnar dregur í álfunni, stækki viðmiðunarmörkin sem segja til um hvenær drykkja sé hætt að vera hófleg.

This entry was posted in Áfengismisnotkun, Alzheimerssjúkdómur, Blóðrásarheilabilun, heili and tagged , , , , , , , , , . Bookmark the permalink.

Leave a Reply