Höfundar

Mynd: Kristinn Ingvarsson, notuð með leyfi

María K. Jónsdóttir lauk doktorsgráðu í klínískri taugasálfræði frá háskólanum í Houston, Texas árið 1990. Hún hefur starfað við Landspítalann síðan árið 1991 og var stundakennari í  sálfræði við Háskóla Íslands fram til vorsins 2013. Í upphafi sinnti hún aðallega sjúklingum á taugalækninga- og endurhæfingadeildum en hefur síðan árið 2005 verið í fullu starfi á Landakoti. Þar hefur hún einkum sinnt skjólstæðingum minnismóttökunnar og kemur að greiningu á Alzheimers sjúkdómnum og öðrum heilabilunarsjúkdómum. Eftir því sem aldurinn færist yfir eykst áhugi hennar á því hvernig best er að halda heilsu, og þá ekki síst heilaheilsu, jafnt og þétt.

 

Brynhildur Jónsdóttir - pictureBrynhildur Jónsdóttir útskrifaðist með BA gráðu í sálfræði frá Háskóla Íslands 1994. Námskeiðin í lífeðlislegri sálfræði og  taugasálfræði kveiktu brennandi áhuga á heilanum og starfsemi hans sem ekki hefur dofnað síðan. Eftir 10 ára starf í menntamálaráðuneytinu ákvað Brynhildur að láta draum sinn rætast og innritaðist í rannsóknatengt MS nám í gamla háskólanum sínum. Efniviður rannsóknarinnar var Alzheimer-sjúkdómurinn á fyrstu stigum. Eins og nemendur gera gjarnan, sat hún dögum saman á bókasafninu til þess að kynna sér feril sjúkdómsins í heilanum. Oft á tíðum varð þó lestur um heilabilun að víkja fyrir spennandi lesefni um áhrif heilbrigðrar öldrunar á heilann. Það er svo augljóst þegar við horfum í kringum okkur að aldurinn hefur gífurlega misjöfn áhrif á vitræna færni fólks. Á meðan þessi færni lætur verulega undan síga hjá sumum, eru aðrir sem ná háum aldri án þess að högg sjái á vatni. Hvað er það sem aðgreinir þessa tvo hópa? Hvers konar lífstíll undirbyggir heilbrigði heilans fram í háa elli? Þessum spurningum ætlar hún að reyna að svara með því að segja lesendum frá rannsóknum sem gerðar hafa verið um efnið. Já og eftir þetta skemmtilega nám er nýja markmiðið hennar að verða 94 ára gömul, með heila 35 ára!

 

Comments are closed.