Hugleiðsla og heilinn

hugleiðslaSjúklingar mínir spyrja mig oft hvað þeir geta gert til að viðhalda heilbrigði heilans og öflugu hugarstarfi. Margir þeirra trúa því að krossgátur geri kraftaverk og gera þær reglulega. Krossgátur geta ábyggilega hjálpað en einar og sér duga þær ekki til. Þegar ég svara þessari spurningu legg ég því alltaf áherslu á að fólk sé athafnasamt og virkt í daglegu lífi. Það er auðvitað mikilvægt að huga vel að líkamlegri heilsu, fá góðan svefn, borða hollan mat, stunda líkamsrækt reglulega og halda góðum tengslum við fjölskyldu og vini. Tilfinningaleg vellíðan er mikilvæg og stuðlar að heilbrigðu hugarstarfi. Í stuttu máli, allt sem er gott fyrir þig er líka gott fyrir heilann. Hugleiðsla er eitt af þessu.

Hugleiðsla og heilinn

Það eru til margar hugleiðsluaðferðir og það er ekki markmiðið hér að gefa yfirsýn yfir þær. Þess nægir að geta að með reglulegri hugleiðslu getum við þaggað niður í viðstöðulausu masinu í kollinum á okkur. Við verðum einbeittari og slökum á. Af þessum sökum er hugleiðsla góð leið til að minnka streitu. Því hefur einnig verið haldið fram að hugleiðsla hafi margvísleg góð áhrif á heilsuna og geti til dæmis lækkað blóðþrýsting og styrkt ónæmiskerfið. En á það skal bent að margar rannsóknir á þessu sviði eru aðferðafræðilega ekki nógu sterkar og betri rannsókna er þörf.

Undanfarið hefur áhugi á áhrifum hugleiðslu á heilann verið nokkur og rannsóknir hafa sýnt að breytingar geta orðið á formgerð heilans við hugleiðslu. Heilabörkurinn (gráa efnið) er þykkari og fellingarnar í heilanum eru öðru vísi hjá þeim sem hafa stundað hugleiðslu um langa hríð en hjá öðrum. Þau svæði sem nefnd hafa verið í þessu samhengi eru framheilinn og gagnaugageirinn, en einnig hafa önnur svæði verið nefnd. Í einni rannsókn kom til dæmis í ljós að drekarnir (hægri og vinstri), sem tengjast námi og minni, voru stærri í þeim sem hugleiddu en í samanburðarhópi. Talið var að þetta gæti tengst því að hugleiðsla minnkar streitu sem drekinn er afar viðkvæmur fyrir. Einnig hefur verið sýnt fram á að hugleiðsla getur breytt hvíta efninu, eða taugabrautunum, sem bera boð milli ólíkra svæða heilans.

Orsök eða afleiðing?

Þegar við berum saman heila þeirra sem hafa mikla reynslu af hugleiðslu og þeirra sem aldrei hafa hugleitt er erfitt að fullyrða að sá munur sem sést sé einungis tilkominn vegna hugleiðslu. Það er nefnilega hugsanlegt að þeir sem stunda hugleiðslu séu öðruvísi frá upphafi. Þeir gætu til dæmis haft þykkari heilabörk eða öflugra net taugafruma á þeim svæðum sem mikilvæg eru í hugleiðslu. Þeir væru því líklegri til að halda það út að hugleiða til lengri tíma og njóta afrakstursins. Hinsvegar sýndi nýleg rannsókn að hugleiðslutengdar breytingar í heila eftir einungis 11 klukkustunda þjálfun í hugleiðslu sem styrkir þá hugmynd að það sé hugleiðslan sjálf sem breytir heilanum. Þessi breyting var heldur ekki tilkomin vegna slökunar þar sem samanburðarhópurinn stundaði slökun og hjá þeim sáust ekki sambærilegar breytingar í heila.

Hugsaðu um heilann eins og um líkamann

Við vitum að margir eyða miklum tíma í ræktinni til að bæta líkamlega hreysti en ekki síður til að bæta útlitið. En að líta vel út og að hafa sterkan líkama er ekki nóg. Við verðum líka að hugsa vel um heilann. Það kemur okkur til góða þegar til langs tíma er litið og vegur upp á móti öldrunarferlinu og leiðir vonandi til bættrar hugrænnar heilsu. Það er ekki óhjákvæmilegt að hugrænni heilsu hraki og við getum spornað við fótum. Ein aðferð til að hugsa vel um heilann er að hugleiða.

Ef þú hefur aldrei prófað hugleiðslu er ljómandi góð og skemmtileg kynning á hugleiðslu í eftirfarandi myndbandi (myndbandið er á ensku):

Prófaðu að gera þessa stuttu hugleiðslu einu sinni á dag. Þú getur gert hana nánast hvar sem er, jafnvel við skrifborðið í vinnunni ef næðið er gott. Njóttu!

Tengt efni:

http://skreffyrirskref.is/2013/03/heilarannsoknir-a-arveknimindfulness-beinast-nu-einnig-ad-auknum-samskiptum-heilasvaeda/

http://www.gjorhygli.is

Byggt á:

Berkovich-Ohana, A., Glicksohn, J. & Goldstein, A. (2012). Mindfulness-induced changes in gamma band activity – Implications for the default mode network, self-reference and attention. Clinical Neurophysiology, 123(4), 700-710.

Nolfe, G. (2012). EEG and meditation. Clinical Neurophysiology, 123(4), 631-632.

Ospina MB, Bond K, Karkhaneh M, et al. (2007). Meditation Practices for Health: State of the Research. Evidence Reports/Technology Assessments, No. 155. Rockville, MD: Agency for Healthcare Research and Quality.

Xue, S., Tang, Y-Y & Posner, M. (2011). Short-term meditation increases network efficiency of the anterior cingulate cortex. NeuroReport, 22, 570-574.

Mynd: http://www.flickr.com/photos/oddsock/3701520219/

This entry was posted in Uncategorized. Bookmark the permalink.

2 Responses to Hugleiðsla og heilinn

  1. Pingback: Háþrýstingur og heilahreysti - Heilahreysti.isHeilahreysti.is

  2. Mig langar að benda á æfingakerfi með heilaþrautum sem byggir m.a. á taugasálfræðilegum rannsóknum. Það hefur náð mikilli útbreiðslu og hef ég sjálfur náð að bæta heilafærni mína umtalsvert: sjá http://www.lumosity.com.

    Að sjálfsögðu stunda ég líka almennt heilbrigt líferni, geri andlegar æfingar (sjá vefsíðu mína: http://www.ljosvitinn.com), les mikið og glími við krossgátur og skákþrautir því margt smátt gerir eitt stórt.

Leave a Reply