Hvar er hamingjan í heilanum þínum?

tengslabrautir í heilanum heila og hamingjaJákvæð sálfræði, hamingjuleit og núvitund eru á allra vörum um þessar mundir. Það er auðvitað gott. Gleðiríkt líf hlýtur að vera betra en viðvarandi streita, leiði og pirringur. Við kunnum líka áhrifaríkar leiðir til að hjálpa fólki að auka vellíðan sína og hamingju. Aukin umræða um þessi mál hlýtur því að vera af hinu góða.

Heilaæði

Á enskri tungu hefur orðið neuromania (ísl. heilaæði) rutt sér til rúms hin síðari ár. Í stuttu máli vísar þetta hugtak í þá trú að rannsóknir með starfrænni segulómun (fMRI) geti sýnt okkur hvar flóknir mannlegir eiginleikar og hegðun á borð við ást, stjórnmálaafstöðu og fleira af þeim toga séu staðsett í heilanum. En það mætti líka tala um heilaæði í öðru samhengi því í almennri orðræðu er meira talað um heilann en áður og oftar birtast fréttir af heilarannsóknum í fjölmiðlum. Þrátt fyrir þá umræðu sitja enn sem fastast ýmsar ranghugmyndir um heilann og heilastarfsemi, til dæmis sú að við notum lítinn hluta heilans og að hjá skapandi einstaklingum sé hægra heilahvelið ríkjandi. Svo fast kveður að þessu að talað hefur verið um alþýðutaugavísindi.

En er nauðsynlegt að blanda umræðu um heilastarfsemi inn í allt mögulegt? Er það kannski bara gert til að ljá málinu vísindalegan blæ? Eða jafnvel selja fólki gamlar hugmyndir á nýjum belgjum? Erlendis hefur til dæmis verið kynnt sálfræðileg meðferð sem sögð er byggja á taugavísindalegum grunni (brain-based therapy) og sem snýst um að temja ákveðna heilahluta, fá taugafrumur til að virkjast samtímis og fleira í þeim dúr. Þegar grannt er skoðað virðist þarna hinsvegar um hefðbundna sálfræðimeðferð að ræða

Að breyta heilanum

Rannsóknir hafa sýnt að mannsheilinn getur breyst með árangursríkri hugrænni atferlismeðferð sem er í samræmi við klínískar rannsóknir sem sýna gagnsemi meðferðarinnar. Heilinn breytist líka með ýmissi annarri reynslu, góðri sem slæmri. Þetta er auðvitað áhugavert enda hafa hugmyndir okkar um aðlögunarhæfni heilans breyst á síðustu áratugum. Það er nú viðurkennt að með því að breyta hegðun okkar eða læra nýja hluti getum við haft áhrif á heilann eftir að fullorðinsárum er náð.

Sennilega mætti almenn vitundarvakning um þau áhrif sem við getum haft á heilann, til góðs eða ills, með þeim lífsstíl sem við veljum okkur vera meiri. Það þarf ábyggilega að fræða fólk á markvissari hátt um aðlögunarhæfni heilans svo að fólk geri sér til dæmis grein fyrir jákvæðum áhrifum heilsuræktar, streitustjórnunar, hugleiðslu og góðs svefns fyrir heilahreysti.

En oft má heilaumræða missa sín. Verður til dæmis umfjöllun um hamingjuleit endilega trúðverðugri með tilvísan í rannsóknir á heilastarfsemi?

Hamingjan og heilinn

Í annars ljómandi viðtali í síðdegisútvarpinu þann 10. september sl. um núvitund og hamingjuna segir Ásdís Olsen um rannsóknir á heilanum: „ … við erum búin að vera svo upptekin af þessari vitrænu þekkingu, við höfum stólað svo mikið á hugsunina, en í rauninni er engin hamingja þarna í vinstra heilahvelinu, þar getur verið einhver húmor, og gleði og spenna…, en í rauninni er þessi kærleikur og þessar jákvæðu tilfinningar og vinsemd og sátt og þessi tilfinning að tilheyra og vera eitt með öllu sem að er okkur mjög eiginleg og kannski það besta sem við getum eignast, að vera í hægra heilahvelinu, styrkja þetta svæði …“

Þarna er margt sem gera má gera athugasemdir við. Í fyrsta lagi má á orðum Ásdísar skilja að vitrænt starf fari bara fram í vinstra heilahvelinu sem er ekki rétt. Þarna eru sömuleiðis leifar að gömlum draug í alþýðutaugavísindum, nefnilega þeim að hægra hvelið sé hið skapandi „innsæis-hvel“og það vinstra greinandi. Það er hinsvegar  þannig að heilahvelin tvö eru tengd með umfangsmiklum hvelatengslum en starfa ekki einangruð frá hvort öðru nema þegar þau hafa verið aðskilin með skurðaðgerð. Jafnvel þá er ekki endilega hægt að koma í veg fyrir samtal þeirra á milli.

Það er rétt hjá Ásdísi að núvitund og hugleiðsla geta leitt til breytinga í heilanum. Það er hinsvegar ekki rétt að hamingjan sé í hægra hvelinu. Hægra heilahvelið er auðvitað helmingurinn af heilanum og inniheldur margskonar ólík svæði. Ég veit þó ekki til þess að hamingjan hafi verið staðsett þar. Heilinn er eitt stórt tengslanet og ekki er hægt að staðsetja flókið hugarstarf eða flóknar tilfinningar og félagslegt atferli á einum stað í heilanum. Minni, mál, rökhugsun, ást, húmor og hamingja eiga sér ekki einn samastað í heilanum því hugarstarf og tilfinningar má kljúfa í marga undirþætti. Þessir undirþættir tengjast í starfrænu neti þar sem þeir samtvinnast svo úr verða til dæmis tilfinningar eins og hræðsla, gleði og sorg.

Mikið hefur verið skrifað um tilfinningar og heilann og fram hafa komið ýmsar kenningar þar að lútandi. Samkvæmt einni þeirra er hægra hvelið ríkjandi í tilfinningalífinu og samkvæmt annarri kenningu er vinstra hvelið ríkjandi þegar kemur að jákvæðum tilfinningum og það hægra ríkjandi í neikvæðum tilfinningum. Það væri til dæmis í samræmi við það að sjúklingar sem fá blæðingu í vinstra hvel verða oftar þunglyndir skömmu eftir veikindi en þeir sjúklingar sem fá blæðingu í hægra heilahvel. Aðrar kenningar eru til en málið er vissulega ekki útkljáð. Það er þó víst að mörg svæði tvinnast saman til að leggja grunninn að upplifunum á borð við hamingju, vinsemd og sátt. Heilinn er „dýnamískt” kerfi þar sem mörg svæði vinna saman að hugsun og tilfinningalífi okkar. Ást og hamingja verða ekki til við að kveikt og slökkt er á tilteknum svæðum án samvinnu við önnur svæði. En það er líka einmitt það sem gerir heilann erfiðan til rannsókna og rannsóknarniðurstöður erfiðar í túlkun.

Notum bæði heilahvelin!

Vissulega er heilinn grundvöllur að allri hegðun okkar og síst vil ég draga úr mikilvægi hans eða því að almenningur hafi þekkingu á heilastarfsemi. Það er af hinu góða að fræða almenning um heilastarfsemi og útrýma ranghugmyndum (t.d eins og þeirri að hægt sé að skipta fólki í hægra og vinstra hvels fólk). En það er slæmt þegar fræðsla til almennings um annars góða hluti eins og núvitund og jákvæða sálfræði er tengd taugavísindum án þess að rétt sé með farið.

Mér líður afskapalega vel með bæði heilahvelin í góðu jafnvægi og samstarfi og hyggst ekki sleppa því fyrirkomulagi fái ég einhverju um það ráðið. Við skulum endilega nota bæði heilahvelin eins vel og við getum, eins og við erum til sköpuð. Og með því að lifa heilbrigðu og virku lífi gerum við um leið það sem við getum til að styrkja allan heilann og varðveita heilahreysti sem lengst fram eftir ævinni. Þó ég reyni að tileinka mér núvitund og hugleiði stundum er það ekki gert til að styrkja hægra heilahvelið – það einfaldlega kyrrir minn stundum ofvirka huga og lætur mér líða vel.

Nokkrar heimildir:

Britta K., Hölzel, B. K., Hoge, E. A. og Greve, D. N. (2013). Neural mechanisms of symptom improvements in generalized anxiety disorder following mindfulness training. NeuroImage: Clinical, 2, 448–458.

Hölzel, B. K., Carmody, J., Vangel, M. o.fl. (2011). Mindfulness practice leads to increases in regional brain gray matter density. Psychiatry Res. 191(1), 36-43.

Leung, M. K., Chan, C.C.,Yin, J. o.fl. (2013) Increased gray matter volume in the right angular and posterior parahippocampal gyri in loving-kindness meditators. Soc Cogn Affect Neurosci. 8(1), 34-9.

Lindquist, K. A. og Feldman Barrett, L. (2012). A functional architecture of the human brain: ermerging insights from the science of emtion. Trends in Cognitive Sciences, 16(11), 533-540.

Zaidel, D. W. (2013). Chapter 1–Split-brain, the right hemisphere, and art: Fact and fiction. Progress in Brain Research The Fine Arts, Neurology, and Neuroscience — New Discoveries and Changing Landscapes, 204, 3–17.

Mynd: Radu Jianu/Brown University, http://www.flickr.com/photos

This entry was posted in Uncategorized. Bookmark the permalink.

Leave a Reply