Líkamsræktin sem forvörn gegn Alzheimerssjúkdómi

Í þessum pistli fjallaði ég um jákvæð áhrif þjálfunar á formgerð heilans og virkni. Fyrir ykkur sem eruð eins og ég, sífellt að leita að einhverju sem getur vegið upp á móti eðlislægri leti minni og hvatt mig áhrif í ræktinni, hef ég fleiri góðar fréttir að færa: Rannsóknir sýna að regluleg líkamsrækt getur líka seinkað einkennum Alzheimerssjúkdóms og annarra heilabilunarsjúkdóma.

Væg vitræn skerðing (mild cognitive impairment) er ástand sem skilgreint er sem millistig heilbrigðrar öldrunar og heilabilunar. Einstaklingar sem greinast með væga vitræna skerðingu eru í margfaldri hættu á að þróa með sér Alzheimerssjúkdóm miðað við heilbrigða jafnaldra.

older runner

Ein rannsókn leiddi í ljós að fólk sem stundar hæfilega líkamsrækt á miðjum aldri eða síðar, er í meira en 40% minni hættu á að greinast með væga vitræna skerðingu heldur en þeir sem ekki stunda líkamsrækt, þegar búið var að taka út áhrif aldurs, kyns, menntunar, sjúkdóma og þunglyndis.

Önnur rannsókn á yfir 18 þúsundum eldri konum sýndi að vitræn færni þeirra sem fengu mikla, reglulega hreyfingu var á við vitræna getu kvenna sem voru þremur árum yngri að meðaltali. Þessar konur voru líka í 20% minni hættu á að hafa vitræna skerðingu.Í rannsókn á 1740 einstaklingum, var fólki fylgt eftir í 6 ár og síðan mælt hversu margir hefðu þróað með sér heilabilun á þessu tímabili. Niðurstöður sýndu að fjöldi þeirra sem fengu heilabilun var 35% lægri á meðal þeirra sem æfðu 3 sinnum eða oftar í viku, heldur en hjá þeim sem æfðu minna.

Vitandi allt sem ég veit um jákvæð áhrif líkamsræktar, af hverju er svona erfitt að finna tíma í þetta? Það þýðir ekki einu sinni að hugsa um að æfa seinnipart dags, þá þarf að skutla börnunum í íþróttirnar og allt hitt sem maður treður þeim í svo þeim þurfi nú örugglega ekki að leiðast eina einustu mínútu af lífi sínu. Svo er það auðvitað heimanámið, innkaup, þvottur, eldamennska og allt hitt sem þarf að gera. Ég hef líka heyrt að til sé fólk sem vaknar kl. 6 á morgnanna til að fara í ræktina, en ég held að það sé bara flökkusaga. Halló, hver myndi rífa sig upp um miðja nótt til þess að hamast á hlaupabretti? Það væri auðvitað hægt að fara í ræktina eftir kvöldmat, en þá er ég svo þreytt að helst þyrfti lyftara til að ná mér upp úr stofusófanum. Kannski væri ráðið að skipta um sófa, því minn virðist vera þeirrar náttúru að hafa sjálfstætt þyngdarafl sem margfaldast eftir kvöldmat.

En í alvöru talað, fyrir okkur sem finnst mikilvægt að halda heilanum sprækum fram í rauðan dauðann, þá er líkamsræktin varla val!

Byggt á:

-Geda, Y. E., Roberts, R. O., Knopman, D. S., Christianson, T. J. H., Pankratz, V. S., Ivnik, R. J. o.fl. (2010). Physical exercise, aging, and mild cognitive Impairment: A population-based study. Archives of Neurology, 67 (1), 80-86.

-Hamer, M. og Chida, Y. (2009). Physical activity and risk of neurodegenerative disease: a systematic review of prospective evidence. Psychological Medicine, 39 (1), 3-11.
Petersen, R. C. (2005). MCI as a useful clinical concept. Geriatric Times, V (1), 30-36.

-Weuve, J., Kang, J. H., Manson, J. E., Breteler, M. M. B., Ware, J. H. og Grodstein, F. (2004). Physical activity, including walking, and cognitive function in older women. JAMA: The Journal of the American Medical Association, 292 (12), 1454-1461.

This entry was posted in Líkamsrækt and tagged , , , . Bookmark the permalink.

Leave a Reply