Maðurinn sem skar af sér fótinn – aflimunarþrá

Fyrir flest okkar er tilhugsunin um að missa heilbrigðan útlim skelfileg. Það er því undarlegt til þess að hugsa að á meðal okkar er fólk sem þráir heitast af öllu að losna við tiltekinn útlim eða hluta útlims. Þú myndir ekki þekkja þetta fólk úti á götu, það hagar sér alveg eins og ég og þú, enda er það yfirleitt eins og ég og þú að öðru leyti en þessu.

Venus de Milo - aflimunarþrá

Frásögn Robert Vickers í þætti um líkamsímynd á ABC sjónvarpsstöðinni:
Áður en ég náði 10 ára aldri vissi ég að vinstri fótur minn tilheyrði ekki líkama mínum á einhvern hátt og ég vissi að mér myndi aldrei líða eins og mér ætti að líða fyrr en fóturinn væri aflimaður, nákvæmlega á miðju lærinu. Á 30 árum leiddi þessi þrá mín til þunglyndis, geðlæknismeðferða, sjálfsvígstilraunar og tilrauna til að skaða fótlegginn. … Ég var of hræddur við höfnun til þess að þora að ræða þessa stórskrýtnu löngun, jafnvel við geðlækna, þannig að sífellt var verið að reyna að meðhöndla “þunglyndi” mitt. Ég reyndi að frysta fótinn og bað um að hann yrði aflimaður, án þess þó að viðurkenna að ég vildi losna við hann. Ég missti sjálfsforræðið og gekkst undir margar lýtaaðgerðir og að minnsta kosti 6 raflostsmeðferðir áður en ég var útskrifaður, háður alls kyns lyfjum í háum skömmtum. Við 41 árs aldurinn varð löngunin orðin að þráhyggju og ég frysti fótinn með þurrís, vitandi að þessi aðgerð gæti kostaði mig hjónabandið eða lífið. Ég yfirgaf sjúkrahúsið tveimur vikum síðar á hækjum, með stubbinn minn og eiginkonuna mér við hlið. Þann dag breyttist líf mitt til batnaðar. Á þeim 24 árum sem síðan eru liðin sé ég aðeins eftir einu og það er að hafa ekki gert þetta fyrr.

Aflimunarþrá
Í 30 ár hafa birst frásagnir í vísindatímaritum af fólki sem hefur mest allt líf sitt haft yfirþyrmandi löngun til að losna við einn eða fleiri útlimi. Hugtökin sem nú er algengast að notuð séu yfir þetta ástand eru Xenomelia (af grísku orðunum yfir “ókunnur” og “útlimur”) og líkamsímyndarröskun (body integrity identity disorder – BIID). Ástandið er talið vera til komið vegna einhverrar truflunar í þróun líkamlegrar sjálfsímyndar fólks þannig að misræmi myndast á milli líkamans, eins og hann er í rauninni, og þess hvernig viðkomandi einstaklingur upplifir líkama sinn í huganum. Heilinn býr sér til ákveðna mynd, nokkurs konar hugarkort af líkamanum og það er eins og misfarist hafi að taka viðkomandi útlim inn í þá mynd.

Þátttakandi nr. 1 í rannsókn um starfsemi heila:
Þátttakandi er 29 ára gamall, rétthentur karlmaður sem þráir að láta aflima fótlegg á miðjum hægri sköflungi. Hann segir að löngunin til að losna við fótinn á þessum stað hafi fyrst vaknað um 12 ára aldurinn og hafi verið stöðug síðan. Hann neitar að löngunin sé af kynferðislegum toga en lýsir tilfinningunni þannig að honum finnist eins að þessum hluta hægri fótar sé ofaukið og hann einfaldlega vilji losna við hann. Maðurinn hafði áður skorið af sér fremsta hluta löngutangar á hægri hendi, því hann hafði lesið á netinu og sú aðgerð gæti dregið úr lönguninni til að losna við fótinn.Hann hafði þó aldrei fundið til löngunar til að losna við þennan fingur og aðgerðin hafði engin áhrif á hversu mikið honum langaði að losna við fótinn. Maðurinn gerir sér fullkomlega grein fyrir því að tilfinningar hans varðandi hægri fótinn eru ekki eðlilegar. Taugaskoðun sýndi örlítið minnkaða tilfinningu fyrir litlum nálastungum frá miðjum hægri sköflungi og niður. Hann greindi frá því að honum fyndist þó stundum eins og þetta svæði væri viðkvæmara en samsvarandi svæði á vinstri fæti. Mánuði eftir að þessi maður tók þátt í rannsókninni olli hann óafturkræfum skaða á hægra fæti sínum með þurrís þannig að taka þurfti fótinn af fyrir neðan hné.

Fólki með aflimunarþrá segist oft líða þannig að ákveðinn útlimur hreinlega tilheyri ekki líkama þess, að líkami þess sé að einhverju leyti ekki í samræmi við þá hugmynd sem það hafi um líkama sinn eða sjálft sig. Það telur að aflimun myndi gera að verkum að því myndi líða eins og það væri orðið heilt og í samræmi við eigin hugmyndir eða tilfinningu um sig sjálft. Meirihluti þeirra einstaklinga sem vitað er um að þjáist af aflimunarþrá vill losna við einn af stóru útlimunum en ekki bara fingur eða tá. Algengast er að fólk vilji losna við vinstri fót rétt fyrir ofan hné. Flestir segjast fyrst hafa fundið fyrir þessari tilfinningu snemma í barnæsku eða við upphaf táningsára. Margir vita alveg upp á hár hvar þeir vilja láta skera útliminn af, þeir geta teiknað línu og sýnt nákvæmlega hvar fótur þeirra hættir að tilheyra líkama þeirra (skurðarlína) og hjá langflestum er þessi lína alltaf á sama stað. Sumir sem haldnir eru aflimunarþrá segjast hafa eðlilega skynjun í útlimnum sem það vill losna við en aðrir ekki. Sumir segja þrána eftir aflimun vera alltaf til staðar og alltaf jafn sterka en aðrir segja að löngunin vaxi með aldrinum. Þetta hljómar auðvitað afskaplega framandi fyrir okkur sem burðumst ekki með svona tilfinningar en bara svo það sé alveg á hreinu, fólk með aflimunarþrá er ekki í geðrofi eða illa haldið af ranghugmyndum, það veit alveg að útlimurinn tilheyrir líkama þeirra, það bara upplifir hann ekki sem sinn.

Frá christomat1 af vefsíðu fyrir fólk með aflimunarþrá:
Líf með aflimunarþrá er afskaplega pirrandi! Þjóðfélagið samþykkir ekki þetta ástand og maður þarf að eiga við ástandið hjálparlaust. Þessi sjúkdómur er svo yfirdrifinn að heilbrigðisstéttirnar virðast ekki geta átt við hann. Stór hluti starfsfólks í geðheilbrigðisþjónustu hefur ekki einu sinni heyrt um þessa röskun og ef það hefur ekki heyrt um hana hvernig á það þá að skilja sjúkdóminn, hvað þá að meðhöndla hann? Það virðist sem skurðaðgerð sé það eina sem geti læknað ástandið. Margra ára reynsla mín af sjúkdómnum hefur kennt mér að það þýðir ekkert að trúa öðru fólki fyrir tilfinningum þínum og þörfum. Það er of vandræðalegt og fólk hefur tilhneigingu til að bregðast við á neikvæðan hátt. Það bara skilur þetta ekki! Ég verð að segja, þetta er EKKI geðsjúkdómur. Ég er viss um að ég fæddist svona. … Ég var svo heppinn að finna skurðlækni sem framkvæmdi aflimum og frelsaði mig frá þessari miklu kvöl sem ég hafði þolað árum saman. Það er nokkuð síðan aflimunin var gerð og hún læknaði mig af líkamsímyndarröskuninni. Það var þvílíkur léttir að losna undan þessari endalausa þjáningu. Ég var afskaplega lánsamur að fá skurðaðgerð og fá þar með varanlega lausn. Ég á núna líf sem er þess virði að lifa! Ég er yfirmáta hamingjusamur og ánægður, að vera loksins hinn sanni ég.”

Gúmmihandar-tálsýnin – líkamsímynd okkar er sveigjanleg
Við þekkjum líkama okkar og flestum okkar finnst sem tilfinning okkar fyrir eigin líkama sé nokkuð nákvæm og stöðug. En þannig er það alls ekki. Gúmmíhandar-tálsýnin sýnir mjög vel hversu sveigjanleg líkamsímynd okkar í rauninni er. Tálsýnin getur á nokkrum mínútum komið fólki til að finnast sem það hafi tilfinningu í gúmmíhönd sem liggur á borði fyrir framan það. Hún er auðveld í framkvæmd og ég hvet ykkur til að prófa. Þú þarft einhvers konar gervihendi, t.d. uppblásinn gúmmíhanska, stórt spjald og tvo litla málningarbursta. Leggðu gervihöndina á borð fyrir framan þig og feldu þína eigin hönd á bak við spjaldið. Fáðu því næst einhvern til að strjúka eða pikka samtímis í gervihöndina og þína (földu) hönd með málningarburstunum. Horfðu á gervihöndina á meðan hún er snert og bingó! Allt í einu líður þér eins og gervihöndin sé hluti af líkama þínum. Hér er aðferðin sýnd á YouTube myndbandi frá newscientistvideo: http://goo.gl/CWglH.

En af hverju myndi einhver vilja losna við fullkomlega heilbrigða útlim?

Superior parietal lobule

Vísindamenn og konur skilja ekki til hlítar hvernig líkamsímynd okkar verður til. Það sem við vitum er að alls kyns truflanir geta orðið á líkamsímynd í kjölfar skemmda í hægra hvirfilblaði (neglect, anosognosia, somatoparaphrenia, anosodiaphoria, misoplegia, phantom limbs). Það liggur því beinast við að skoða virknina í hægra hvirfilblaði hjá einstaklingum sem þjást af aflimunarþrá. Árið 2011 notuðu McGeoch of félagar segulómstækni (MEG) til að skoða starfsemi á ákveðnum stöðum í heilum fjögurra einstaklinga með aflimunarþrá (sem beindist að vinstri eða hægri fótlegg). Borin var saman virkni í heila annars vegar þegar fótur var snertur fyrir neðan skurðarlínu og hins vegar fyrir ofan. Einnig var heilavirkni fólksins borin saman við heilavirkni heilbrigðra. Niðurstöður sýndu að á ákveðnum stað í hægra hvirfilblaði (superior parietal lobule) var virknin minni þegar snertingin var fyrir neðan skurðarlínuna heldur en þegar snerting kom fyrir ofan línuna. Höfundarnir ályktuðu sem svo að aflimunarþráin væri til komin vegna þess að útlimurinn sem fólkið vildi losna við væri ekki táknaður á réttan hátt á þessu svæði. Vegna þess að sá hluti heilabarkar sem sér um að taka á móti skynupplýsingum er heill og óskemmdur hefur fólk með aflimunarþrá eðlilega skynjun í útlimnum. Myndin sem fólkið hefur af líkama sínum í huganum og virðist byggjast á starfsemi superior parietal lobule er aftur á móti ófullkomin, þannig að misræmi myndast þegar upplýsingarnar sem koma með skyntaugunum frá útlimnum ber ekki saman við ímyndina sem heilinn hefur af líkamanum og fólkinu líður eins og útlimurinn sé ekki hluti af líkamsímyndinni.

Hér fyrir neðan er myndband af Youtube um mann með aflimunarþrá sem tekur málin í eigin hendur (ekki fyrir viðkvæma):

Byggt á:

Blanke, O., Morgenthaler, F. D., Brugger, P. and Overney, L. S. (2009). Preliminary evidence for a fronto-parietal dysfunction in able-bodied participants with a desire for limb amputation. Journal of Neuropsychology, 3(2), 181-200.

First, M. B., (2004). Desire for amputation of a limb: paraphilia, psychosis, or a new type of identity disorder. Psychological medicine, 34, 1-10.

McGeoch, P. D., Brang, D., Song, T., Lee, R.R., Huang, M. and Ramachandran, V.S. (2011). Xenomelia: a new right parietal lobe syndrome. Journal of neurology, neurosurgery and psychiatry, 82, 1314-1319.

Ramachandran, V.S. and McGeoch, P. (2007). Can vestibular caloric stimulation be used to treat apotemnophilia? Medical Hypotheses 69, 250-252.

This entry was posted in Aflimunarþrá, Hvirfilblöð, Superior parietal lobule, Uncategorized and tagged , , , , . Bookmark the permalink.

Leave a Reply