Móðir mín er geimvera!

Þú ert heima hjá þér að að baka pönnukökur því mamma þín er að koma í heimsókn og þig langar að gefa henni eitthvað gott með kaffinu. Þú heyrir í dyrabjöllunni og ferð til að opna útidyrnar. Þú heilsar mömmu þinni með kossi á kinn eins og vanalega, tekur af henni kápuna og býður henni til stofu. Þið setjist niður og byrjið að spjalla. Þetta er eitthvað sem þið hafið oft upplifað saman en samt er eitthvað ekki eins og það á að vera. Þú bara losnar ekki við tilfinninguna um að þetta sé ekki mamma þín. Þessi kona lítur út eins og mamma þín, hún er í fötunum hennar mömmu þinnar, hún talar við þig með rödd mömmu þinnar og hún hreyfir sig eins mamma þín en samt vantar eitthvað sem þú getur ekki langt fingur á. Illur grunur læðist að þér, þetta hreinlega hlýtur að vera einhver sem er að villa á sér heimildir, móðirin er farin og tvífari hennar kominn í staðinn, eða geimvera hefur tekið yfir líkama móður þinnar.

Capgras heilkennið
Ætla mætti að lýsingin hér af ofan ætti við um einstakling sem væri algjörlega búin að missa raunveruleikaskynið. Það er þó ekki nauðsynlega reyndin, því þetta ástand sem kallað hefur verið Capgras heilkennið, getur verið afleiðing heilaskaða, geðklofa eða heilabilunar og er ástandið stundum varanlegt en stundum tímabundið.

Fyrirbærinu var fyrst lýst árið 1923 af Joseph Capgras, sem kallaði það tvífaratálmyndina (the illusion of doubles). Þessar ranghugmyndir beinast iðulega að maka, foreldrum, börnum eða gæludýrum, en aldrei að ókunnugum, því tilfinningasamband er algjört skilyrði fyrir því að Capgras heilkennið komi til. Hjá sumum er þessi tilfinning um ókunnugleika einungis fyrir hendi þegar þeir standa andspænis „tvífaranum“, þ.e. sjá hann, en ekki þegar þeir tala við hann í síma.

Hér fyrir neðan er myndband af YouTube sem sýnir ungan mann sem þjáist af Capgras heilkenninu í kjölfar alvarlegs bílslyss:


Mögulegar skýringar á Capgras heilkenninu
Heilinn notar nokkra samhliða ferla til þess að bera kennsl á andlit. Einn ferillinn sér um að þekkja andlit sem andlit, annar ferillinn tengir viðkomandi andlit við ýmsar upplýsingar sem við höfum um viðkomandi (t.d. þetta er andlitið á mömmu, henni finnst gaman að reikna og uppáhaldslitur hennar er grænn). Enn annar ferill tengir viðkomandi andlit við tilfinningar sem þú hefur gagnvart manneskjunni og tilfinninguna fyrir því hvort andlitið er kunnuglegt eða ekki. Þessir sömu ferlar koma líka við sögu þegar við heyrum rödd eða lykt sem við tengjum við ákveðnar manneskjur.

Hvað er það þá við feril andlitskennsla sem fer úrskeiðis hjá fólki með Capgras heilkennið? Sumir vilja tengja skýringuna svokallaðri tveggja strauma kenningu.

picture of fusiform gyrus
Fusiform gyrus

Talið er að þegar við berum kennsl á andlit sem hlut, sé notuð taugabraut sem liggur frá sjónberki aftast í hnakkanum fram í gagnaugablöð. Þessi taugabraut er kölluð neðri straumur (ventral pathway), eða „hvað“ brautin. Svæðið í gagnaugablöðunum sem ber ábyrgð á kennslunum (þ.e. að þekkja andlit) heitir fusiform gyrus (sjá mynd). Önnur taugabraut liggur frá sjónberki upp í hvirfilblöð. Sú taugabraut er kölluð efri straumur (dorsal pathway), eða „hvar“ brautin. Efri straumurinn sendir svo taugasíma sína í gyrðisfellingu (cingulate gyrus), en þar fer fram samræming skynupplýsinga (sensory input) og tilfinninga. Ætla mætti að það væri því í gyrðisfellingunni sem tilfinningaviðbrögð sem tengd eru ákveðnum andlitum myndu vakna. Í fólki með Capgras heilkenni væri þá neðri straumurinn heill, þ.e. fólk gæti séð og borið kennsl á andlit á eðlilegan hátt og tengt alls kyns minningar við viðkomandi andlit. Boðleiðir eftir efri straumi væru aftur á móti skemmdar þannig að andlit ástvinar kallaði ekki lengur fram þær tilfinningar sem áður voru því tengdar. Hjá fólki með Capgras heilkenni er því sjónræn úrvinnsla eðlileg (fólk sér og ber kennsl á andlitin), tilfinningasvörun er líka eðlileg, en tengslin þarna á milli eru rofin þannig þessi kunnugleikatilfinning sem ákveðið andlit vakti áður er ekki lengur til staðar. Ástæðan fyrir því að ókunnleikatilfinningin er aðeins til staðar þegar horft er á manneskjuna en ekki þegar talað er við hana í símann er þá að sjálfsögðu til komin vegna þess að tengslin á milli sjónar og tilfinninga er á einhvern hátt skemmd en ekki tengslin á milli heyrnar og tilfinninga.

picture: ventral and dorsal streams

Myndin sýnir neðri straum (fjólublár) og efri straum (grænn) sjónkerfisins. Sumir vísindamenn hallast að því að hjá fólki með Capgras heilkenni sé neðri straumurinn heill og óskemmdur þannig að fólk þekkir andlit en efri straumurinn er skemmdur sem leiðir til þess andlitið vekur ekki lengur upp sömu tilfinningar og áður. Hjá fólki með andlitsstol er neðri straumurinn skemmdur sem veldur því að fólk getur ekki lengur borið kennsl á kunnugleg andlit, en efri straumurinn er heill þannig að jafnvel þó fólk geti ekki meðvitað borið kennsl á andlit, getur andlitið engur að síður vakið einhvers konar tilfinningaviðbrögð.

 

 

Capgras heilkenni og andlitsstol (prosopagnosia)
Capgras heilkennið virðist náskylt andlitsstoli (prosopagnosia). Þrátt fyrir að vera með óskerta sjón og geta borið kennsl á alls kyns hluti, er fólk með andlitsstol ófært um að þekkja kunnugleg andlit. Það þekkir jafnvel ekki eigin spegilmynd og þekkir annað fólk einungis út frá rödd, fötum, hárgreiðslu, líkamsstöðu og þess háttar. Einhver ómeðvitaður hluti heilans virðist þó virkjast við að sjá kunnugleg andlit, því margt fólk sem þjáist af andlitsstoli sýnir meiri ósjálfráð viðbrögð í húð (skin conductance response) þegar það sér kunnugleg andlit, en þegar andlitin eru ókunnug. Með öðrum orðum virðist fólk með andlitsstol fært um að sýna tilfinningaviðbrögð þegar það horfir á andlit sem það á að þekkja, en þekkir samt ekki meðvitað.

Sumir vilja halda því fram að Capgras heilkennið sé andstæða andlitsstols, þ.e. fólk með andlitsstol þekkir ekki andlit en sýnir þó ósjálfráð tilfinningaviðbrögð við kunnugum andlitum, fólk með Capgras heilkenni þekkir aftur á móti andlit en eðlileg tilfinningaviðbrögð fylgja ekki andlitskennslunum. Öfugt við fólk með Capgras heilkenni, þá er neðri straumurinn skemmdur hjá fólki með andlitsstol en efri straumurinn heill.

Hirstein og Ramachandran (1997) töldu að ofangreind skýring á Capgras heilkenninu væri of einföld til að geta gert grein fyrir öllum þeim atriðum sem taka þarf tillit til, t.d. þeirri staðreynd að skemmdir í heilum fólks með Capgras heilkenni eru oftar staðsettar í gagnaugablöðum (neðri straumur), en í hnakka- eða hvirfilblöðum (efri straumur). Þeir vilja frekar meina að orsök heilkennisins sé truflun í taugabraut sem liggur beint frá gagnaugablaði til tilfinningastöðvanna.

Hér má sjá Vilayanur Ramachandran, sem er hálfgerð rokkstjarna í taugavísindunum, á Ted talks:

http://www.ted.com/talks/vilayanur_ramachandran_on_your_mind.html

Að lokum langar mig að deila með ykkur þessari harmþrungnu frásögn af spjallsvæði um Capgras heilkennið.

„Konan mín til 32 ára var nýlega greind með Capgras heilkennið í kjölfar geislameðferðar og fjölmargra skurðaðgerða vegna heilaæxlis. Það sorglega er að hún þekkir mig aðeins sem eiginmann sinn þegar hún talar við mig í síma. Stundum þekkir hún ekki húsið okkar og finnst furðulegt að það líti nákvæmlega eins út og raunverulegt heimili hennar. Þetta er ekki auðvelt, en ég reyni að leyfa henni að hugsa um mig sem vin sem eiginmaður hennar bað um að annast hana. Hún spyr mig í sífellu hvar eiginmaður hennar sé og hvort hann eigi kærustu. Þetta er þyngra en tárum taki en hún er ást lífs mín.“

Byggt á:

Gallego, L., Vázquez, S., Peláez, J. C., & López-Ibor, J. J. (2011). Neuropsychological, clinical and social issues in two patients with Capgras Syndrome]. Actas españolas de psiquiatría, 39(6), 408.

Hirstein, W. S., & Ramachandran, V. S. (1997). Capgras syndrome: A novel probe for
understanding the neural representation of the identity and familiarity of
persons. Proceedings of the Royal Society B: Biological Sciences, 264, 437-444.

Tranel, D., Damasio, H., & Damasio, A. R. (1995). Double dissociation between overt and covert face recognition. Journal of Cognitive Neuroscience, 7(4), 425-432.

This entry was posted in Capgras heilkenni, Gagnaugablöð, Heilinn, Hvirfilblöð and tagged , , , , , , , . Bookmark the permalink.

One Response to Móðir mín er geimvera!

  1. Magnus says:

    Brillant pistill!! Svona heilkenni sem kveiktu áhuga minn á heilanum, back in the days!

Leave a Reply