Reykingar, heilinn og hugarstarf

Flestir áhættuþættir fyrir hjarta- og æðasjúkdóma, eru líka áhættuþættir fyrir heilabilun á efri árum. Reykingar eru eins og flestir vita, einn af þessum áhættuþáttum. Reykingafólk hefur verra blóðflæði til heilans sem eykur líkurnar á skemmdum og virðast skemmdir í heilum reykingafólks vera í réttu hlutfalli við magn reykinga.

Reykingar og rýrnun heilavefs
old-lady-smoking-cigar.jpgÍ rannsókn þar sem gráa efni heilans var borið saman hjá reykingafólki og fólki sem ekki reykti, kom í ljós að á sumum svæðum í heila reykingafólks var heilabörkurinn þynnri en í fólki sem ekki reykti. Stærsti munurinn sást á hliðum framheilans (frontal cortex), þ.e. þeim hluta heilans sem rannsóknir hafa sýnt að er mjög viðkvæmur fyrir aldursbundinni rýrnun (tengill í: heilinn rýrnar með aldrinum). Reykingar virðast því ekki aðeins flýta aldurstengdum breytingum á húð, heldur einnig í heila.

Reykingar og hugarstarf
Rannsóknir á fólki á miðjum aldri og eldra sýna að vitræn færni fólks sem ekki reykir er að meðaltali betri en fólks sem reykir. Einnig að vitrænni færni fólks sem reykir muni frekar hraka með aldrinum heldur en vitrænni færni fólks sem hefur aldrei reykt eða er hætt að reykja.
Sumir gætu haldið því fram að það séu bara vitleysingar sem byrja að reykja og því geti þessi munur á vitrænni færni hafa verið til staðar frá upphafi og hafi hreinlega ekkert með reykingar að gera. Þetta er auðvitað erfitt að sanna með óyggjandi hætti, því fæstar rannsóknir hafa gögn um vitræna færni þátttakenda fyrir og eftir að reykingar hófust. Þannig rannsóknir eru þó til. Ein rannsókn mældi vitræna færni 470 einstaklinga, fyrst þegar þeir voru 11 ára og aftur þegar þeir voru 80 ára gamlir. Niðurstöður hennar sýndu að þeir sem reyktu um 80 ára aldurinn sýndu verri frammistöðu en þeir sem aldrei höfðu reykt eða höfðu hætt að reykja og hélst sá munur eftir að búið var að taka tillit til frammistöðu þeirra um 11 ára aldurinn.

Ljósmynd: http://www.flickr.com/photos/uniquely/

Byggt á:
-Anstey, K. J., von Sanden, C., Salim, A. og O’Kearney, R. (2007). Smoking as a risk factor for dementia and cognitive decline: A meta-analysis of prospective studies. American Journal of Epidemiology, 166(4), 367-378.
-Brody, A. L., Mandelkern, M. A., Jarvik, M. E., Lee, G. S., Smith, E. C., Huang, J. C. o.fl. (2004). Differences between smokers and nonsmokers in regional gray matter volumes and densities. Biological Psychiatry, 55(1), 77-84.
-Raz, N., Gunning-Dixon, F., Head, D., Rodrigue, K. M., Williamson, A. og Acker, J. D. (2004). Aging, sexual dimorphism, and hemispheric asymmetry of the cerebral cortex: replicability of regional differences in volume. Neurobiology of Aging, 25(3), 377-396.
-Swan, G. og Lessov-Schlaggar, C. (2007). The Effects of tobacco smoke and nicotine on cognition and the brain. Neuropsychology Review, 17(3), 259-273.

This entry was posted in Áhættuþættir fyrir heilabilun, Reykingar and tagged , , . Bookmark the permalink.

Leave a Reply