Að heyra liti, sjá hljóð og bragða tilfinningar: Samskynjun

Mynd Samskynjun
Svona gætu bókstafir og tölustafir komið fólki með samskynjun fyrir sjónir

Jóna þarf ekki að geyma símanúmer vina sinna í símanum sínum. Hún man öll númer um leið og hún sér þau, enda er hún með innbyggða minnishjálp. Heili hennar er þannig gerður að þegar hún sér tölur, skynjar hún um leið liti. Þar sem hver tölustafur hefur sinn eigin sérstaka lit á hún mjög auðvelt með að muna hvers kyns talnarunur. Siggi aftur á móti hefur litaða heyrn, því tónar kalla fram viðbrögð bæði í heyrn hans og sjón. Hann sér hvítan lit þegar hann heyrir nótuna C, skærgulan þegar hann heyrir E og appelsínugulan þegar hann heyrir A, þannig að hvert lag er fyrir honum eins og litríkt og síbreytilegt málverk. Það er einnig til fólk sem upplifir bragð án þess að bragðlaukar þeirra komist í snertingu við bragðefni. Tiltekið orð gæti til dæmis kallað fram tiltekið bragð. Ímyndaðu þér bara að lesa bók og upplifa fjölbreytta bragðflóru í hverri málsgrein. Hjá enn öðrum hópi fólks kallar mismunandi áferð hluta fram mismunandi tilfinningar. Flauel gæti til dæmis framkallað leiða, postulín afbrýðisemi og stál undrun. Síðast en ekki síst er til fólk sem upplifir liti þegar það horfir á andlit … og stundum mynda þessir litir eins konar geislabaug í kringum höfuðið. Sumir vilja meina að þessi hópur árusjáenda sé skyggn og sjái lengra en nef þeirra nær, en innan taugavísindanna telst þessi hópur vera með samskynjun.

Samskynjun
Fólk sem er þannig úr garði gert að boð frá einu skynfæri kalla fram skynupplifanir sem venjulega tengjast öðrum skynfærum er sagt vera með samskynjun. Nafnið á rætur sínar að rekja til gríska orðsins σύν (syn) sem þýðir saman and αἴσθησις (aisthēsis), sem þýðir skynjun. Það eru til margar tegundir samskynjunar, næstum allar hugsanlegar paranir skynupplifana eru mögulegar. Flestir þeirra sem hafa samskynjun segjast hafa verið gæddir þessum eiginleika eins lengi og þeir muna. Upplifanir þeirra eru ekki viljastýrðar, heldur ósjálfráðar og þær eru einnig stöðugar. Ef fólk sér tölustaf í ákveðnum lit, er sá litur tengdur tölustafnum allt lífið. Meirihluti þeirra sem hafa samskynjun myndu ekki láta sig dreyma um að losna við eiginleikann, jafnvel þó hann geti stundum verið óþægilegur, s.s. þegar ógleðin hellist yfir vegna viðbjóðslega bragðvonds orðs!

Hvað gerist í heilanum
Í heilbrigðum nýburum eru tengingar á milli svæða í heilanum sem hverfa með tímanum í gegnum ferli sem kallast greinasnyrting (pruning). Fremstu sérfræðingar heims í rannsóknum á samskynjun, Richard E. Cytowic og Vilayanur S. Ramachandran, halda því fram að þessi greinasnyrting sé ófullkomin í fólki með samskynjun. Þannig séu fyrir hendi tengingar á milli svæða í heilum fólks með samskynjun, sem eru ekki fyrir hendi hjá þeim eða fyrir hendi í minna mæli hjá þeim sem eru ekki með samskynjun. Afleiðingin verður samsláttur í virkni tiltekinna svæða í heilanum sem taka á móti skynboðum. Allir fæðast því með hæfileikann til samskynjunar en missa eiginleikann með auknum heilaþroska.

Ýmislegt bendir til þess að samskynjun sé ekki jafn óalgeng og áður var talið. Gaman væri nú að að heyra í ykkur sem upplifið hana í athugasemdakerfinu hérna fyrir neðan!

Hér er myndband af YouTube frá McrawfishMAC um mann sem sér liti í stöfum og hljóðum:

… og annað dásamlegt myndband af einhvers konar gervi samskynjun, þar sem algjörlega litblindur maður skynjar liti í gegnum heyrn:

CYBORG FOUNDATION | Rafel Duran Torrent from Focus Forward Films on Vimeo.

Byggt á:

Cytowic, R. E. (2002). Touching tastes, seeing smells—and shaking up brain science. Cerebrum, 4, 7–26.

Hochel, M & Milán, E. G. (2008). Synaesthesia: The existing state of affairs. Cognitive Neuropsychology, 25: 93–117

Ramachandran, V.S. (2011). The Tell-Tale Brain: A Neuroscientist’s Quest for What Makes Us Human. New York: W.W. Norton & Co.

This entry was posted in heili, Samskynjun, Skynjun and tagged , , . Bookmark the permalink.

Leave a Reply