Sjálfið og heilinn

Það er mun auðveldara að finna fyrir sjálfinu en að skilgreina það (Gordon Allport, 1961).

SelfawareHeimspekingar hafa lengi skrifað um meðvitund og sjálfið. Margir hafa hinsvegar dregið í efa að þessi hugtök eigi heima innan taugavísinda. Þessu er ég ósammála. Við eigum hvorki að láta langa heimspekilega arfleifð standa í vegi okkar né hræða okkur. Heimspekingurinn John Searle sagði að það að rannsaka heilann án þess að rannsaka meðvitund væri eins og að rannsaka magann og sleppa því að rannsaka meltinguna! Þarna komst hann vel að orði. Það er því ánægjulegt að rannsóknir á sjálfinu, sjálfsvitund og meðvitund eru orðnar býsna algengar innan taugavísinda.

Söguleg hliðstæða
Á 19. öld, þegar taugasálfræðin var að þróast sem fræðigrein, var skilningur fræðimanna á tungumálinu takmarkaður. En menn létu það ekki hindra sig í að rannsaka sjúklinga með áunna málerfiðleika (málstol). Menn drógu djarfar ályktanir af takmörkuðum gögnum og lítt þróuðum mælingum og skilgreiningum. Stuttu eftir að fyrstu rannsóknirnar á málstoli voru birtar komu fram líkön af anatómíu tungumálsins. Vissulega hafa framfarir á þessu sviði verið miklar síðan í lok 19. aldar en þessar gömlu rannsóknir eru klassískar og eru enn þann dag í dag lesnar af fræðimönnum og háskólanemum. Við getum farið sömu leið með að rannsaka sjálfið. Þetta er flókið hugtak en einhvers staðar verðum við að byrja. Líkt og gert var þegar málstol var fyrst rannsakað.

Sjúklingar með brostið sjálf
Hverjir eru svo þeir sjúklingar sem við getum rannsakað til að læra um sjálfið? Eins og tungumálið er sjálfið margþætt. Það er ekki að finna á einum tilteknum stað í heilanum og það getur brotnað niður á marga vegu. Hér má nefna hið líkamlega sjálf og hið sjálfsævisögulega sjálf (persónulegar minningar). Þetta tvennt, og aðrir hlutar sjálfsins, geta skaðast í sjúkdómum og þegar heilinn verður fyrir áverka.

Það má til dæmis segja að þeir sem hafa lystarstol hafi brenglun í hinu líkamlega sjálfi. Þeir sjá sig sem feita en eru í raun hættulega horaðir. Svo eru til einstaklingar sem hafa látið fjarlæga annan fótinn vegna þess að þeim finnst eins og fóturinn tilheyri þeim ekki (þetta hefur verið kallað xenomelia, sjá hér). Þeir hafa líka einhverja truflun í líkamlegu sjálfi. Svo eru þeir, sem eftir heilaskaða eða heilasjúkdóm, missa alla samlíðan með öðrum og geta ekki lengur sett sig í spor annarra. Þá er talað um truflun í hinu félagslega sjálfi og því tilfinningalega. Þeir sem hafa ekkert innsæi í eigin sjúkdómsástand, hvort sem er skerðingu í hugsun eða skerta líkamlega færni, hafa einnig skerta sjálfsvitund. Það er því margt sem getur fallið undir einhvers konar skerðingu á sjálfi.Rannsóknir á sjálfinu með heilamyndum
Human_brain_midsagittal_cut THE SELFEn það er hægt að rannsaka sjálfið með öðrum hætti en skoða sjúklinga. Til er háþróuð tækni sem gerir okkur kleift að skoða sjálfsvitund í heila heilbrigðra einstaklinga. Hérna á ég við tæki sem kallast PET (sjá hér) og fMRI (starfræn segulómun) sem gera okkur kleift að fylgjast með starfsemi heilans við lausn ákveðinna verkefna. Þá er til dæmis hægt að leggja fyrir þátttakendur verkefni sem reyna á hina ýmsu þætti sjálfsins og bera niðurstöðurnar saman við starfsemi heilans þegar þátttakendur leysa verkefni sem reyna ekki með sama hætti á sjálfsvitund.

Northoff og félagar hans tóku saman 27 PET og fMRI heilarannsóknir á sjálfmiðaðri ferlun (e. self-referential processing) sem er það þegar við vinnum með upplýsingar sem varða okkur sjálf. Niðurstaða þeirra var sú að sjálfmiðaðri hugsun sé stýrt af svæðum í miðju heilans, nánar tiltekið af stórum hluta þess svæðis sem merkt er með tölunni einum (1) á myndinni. En fleiri svæði koma til.

Hver yrði sjálfsupplifun okkar ef öll svæði tengd sjálfinu myndu skemmast? Í rannsókn Phillippi o.fl. frá árinu 2012 var þetta einmitt athugað. Sjúklingurinn, sem kallaður var R., hafði fengið mjög alvarlegan heilaskaða í kjölfar heilabólgu. Skaðinn náði yfir stóran hluta þeirra svæða sem rannsóknir hafa tengt við sjálfsvitund. Sjálfsvitund R var prófuð með ýmsum leiðum og þrátt fyrir víðtækan skaða virtist sjálfsvitund hans að mestu ósködduð! Við eigum greinilega enn margt ólært í að skilja hvernig hinir ýmsu hlutar heilans tengjast sjálfsvitund okkar og það er ljóst að fræðimenn á þessu sviði munu ekki sitja verkefnalausir um næstu framtíð.

Byggt á:

Northoff, G., Heinzel, A., de Greek, M., Bermpohl, F., Dobrowolny, H. og Panksepp, J. (2006). Self-referential processing in our brain – A meta-analysis of imaging studies on the self. NeuroImage, 31, 440-457.

Phillippi, C.L., Feinstein, J.S., Khalsa, S.S., Damasio, A.,Tranel, D., Landini, G., Williford, K. og Rudrauf, D. (2012). Preserved self-awareness following extensive bilateral brain damage to the insula, anterior cingulate, and medial prefrontal cortices. PLoSONE, 7(8): e38413.

Myndir: 1) http://commons.wikimedia.org/wiki/File:Vincent_Bethell_Self_Aware_Placard.png

2) http://commons.wikimedia.org/wiki/Image:Human_brain_midsagittal_cut_.JPG

This entry was posted in Meðvitund and tagged , . Bookmark the permalink.

Leave a Reply