Skallaboltar geta skaðað heilann

Höfuðkúpan verndar heilann fyrir utanaðkomandi skaða og heila- og mænuvökvinn verndar hann fyrir skaða af því að hreyfast til og nuddast utan í höfuðkúpuna. Ef höfuðið verður fyrir nægilega snöggum og öflugum hraðabreytingum getur heilinn engu að síður skollið á innanverða höfuðkúpuna og heilavefurinn tognað eða marist.

Höfuðverkur, ringlun, óáttun og ógleði eru meðal einkenna heilahristings en það hefur komið í ljós að höfuðhögg þurfa ekki endilega að vera af þeirri stærðargráðu að fólk fái heilahristing eða rotist, til þess að heilaáverki eigi sér stað. Endurtekin lítil högg, með eða án einkenna heilahristings, geta einnig haft alvarleg eftirköst og leitt til stigvaxandi skerðingar í heilastarfsemi.

Frá höggdrukknum til áverkaheilabilunar
25 - July - 2009 -- Boxing MatchVið höfum vitað í bráðum heila öld að ástundun hnefaleika eykur líkurnar á heilabilun síðar á lífsleiðinni. Árið 1928 hafði H. Martland meinafræðingur og dánardómstjóri í New Jersey tekið eftir samsafni einkenna hjá boxurum sem fengið höfðu endurtekin högg á höfuðið. Einkennin voru til dæmis hægari hreyfingar, skjálfti, rugl og talvandamál. Þetta kallaði Martland að vera höggdrukkinn (punch drunk). Það var svo annar bandarískur læknir, J.A. Millspaugh sem setti nafn á heilkennið árið 1937 og kallaði það hnefaleikaraheilabilun (dementia pugilistica, pugil þýðir boxari á latínu) og átti það að ná yfir hreyfitruflanir og andlegan sljóleika hjá boxurum. Um 1970 höfðu nægilega margir boxarar verið rannsakaðir meinafræðilega til að hægt væri að staðfesta að um sérstakan taugahrörnunarsjúkdóm væri að ræða, sem væri aðgreinanlegur frá öðrum taugahrörnunarsjúkdómum. Síðan þá hefur komið í ljós að það eru ekki bara hnefaleikarar sem verða fyrir heilabilun vegna endurtekinna heilaáverka og hugtakið sem oftast er notað yfir þessi einkenni í dag mætti kalla áverkaheilabilun á íslensku (chronic traumatic encephalopathy).

Nýlegar rannsóknir gefa til kynna að áverkaheilabilun sé ef til vill algengari hjá fyrrverandi íþróttafólki sem stundað hefur snertiíþróttir (contact sport) en áður hefur verið talið. Merki um áverkaheilabilun hafa sést í heilum íþróttafólks sem keppt hefur í amerískum fótbolta, íshokkí og bandarískri glímu og einnig hjá fórnarlömbum ofbeldis. Einkenni áverkaheilabilunar eru meðal annars hrörnun í minni og hugsun auk þunglyndis, sjálfsvígshegðun, léleg hvatastýring, árásarhneigð og parkinsonlík einkenni. Eins og í öðrum taugahrörnunarsjúkdómum eru einkennin framsækin, þ.e. fara síversnandi með tímanum og enda í heilabilun. Einkennin geta komið fram löngu eftir að íþróttaiðkun var hætt, en meinafræðileg einkenni í heilanum hafa sést hjá fólki á tvítugs- og þrítugsaldri.

Nýleg rannsókn sýnir breytingar í heila atvinnumanna í knattspyrnu
HEAD ONKnattspyrna er trúlega vinsælasta íþrótt í heimi og eina íþróttin þar sem óvarið höfuðið er notað, til að skalla bolta. Þar sem skaðleg áhrif endurtekinna heilaáverka, svo sem skemmdir í hvíta efni heilans, eru vel þekkt í öðrum snertiíþróttum, báru Inga K. Koerte og félagar hennar saman hvíta efnið í heilum atvinnumanna í fótbolta og atvinnumanna í sundi sem aldrei höfðu hlotið heilahristing. Fullkomin myndgreiningartækni (http://en.wikipedia.org/wiki/Diffusion_MRI ) var notuð til að skoða formbreytingar í hvíta efni heila þessara tveggja hópa. Í ljós kom að í ennisblöðum, gagnaugablöðum og hnakkablöðum knattspyrnumannanna höfðu orðið breytingar. Þetta eru svæði sem við vitum að hafa hlutverki að gegna í athygli, sjónrænni úrvinnslu, æðri hugsun og minni. Niðurstöðurnar eru í samræmi við aðrar rannsóknir sem gefa til kynna að þeir knattspyrnumenn sem skalla oft á ferlinum hafa verri athygli, einbeitingu, sveigjanleika í hugsun og verri almenna vitræna færni en þeir sem skalla sjaldnar. Þær eru einnig samhljóma rannsóknum sem gefa til kynna að heilinn getur orðið fyrir skaða án þess að fólk fái heilahristingseinkenni.

Ungir heilar eru viðkvæmari fyrir höfuðáverkum
Mannsheilinn er lengi að þroskast og nær ekki fullum þroska fyrr en eftir 20 ára aldurinn. Hin ólíku kerfi heilans þroskast ennfremur mishratt. Þau svæði heilans sem stýra hreyfingu og skynúrvinnslu þroskast tiltölulega snemma, málsvæði þroskast síðar og þau svæði sem tengjast flókinni rökhugsun, dómgreind og tilfinningastjórn ná ekki fullum þroska fyrr en eftir að táningsárunum lýkur. Af þessum sökum geta afleiðingar heilaáverka verið mismunandi eftir því á hvaða aldri barnið er þegar heilaáverkinn verður.

Eldri hugmyndir um að aðlögunarhæfni barnsheilans væri mun meiri en aðlögunarhæfni fullþroska heila og að börn gætu því bætt sér upp afleiðingar heilaskaða hafa ekki verið studdar rannsóknum. Þvert á móti sýna nýlegar rannsóknir að börn þola heilaskaða verr en fullorðnir, afleiðingarnar séu alvarlegri og hugrænn vandi verði viðvarandi þar sem eðlilegur heilaþroski truflast.

Fótbolti og barnsheilinn
Milljónir barna um heim allan taka frá unga aldri þátt í snertiíþróttum á borð við fótbolta. Í rannsókn þar sem tíðni heilahristings var borin saman hjá unglingum sem stunduðu ýmis konar íþróttir kom í ljós að heilahristingur var algengastur í amerískum fótbolta, en næst algengastur í stúlknafótbolta. Í ljósi þess sem nú er vitað um síðbúnar afleiðingar vægra heilaáverka og þess að við vitum að heilaáverki getur truflað heilaþroska, virðist opinber umræða um áherslur í knattspyrnuþjálfun og reglur um þjálfun og spilamennsku eftir höfuðhögg óþægilega lítil. Ætti að gera skallana útlæga úr knattspyrnu, eins og sumir læknar hafa stungið upp á? Ef ekki, eigum við að bíða með skallaþjálfun barna þar til ákveðnum aldri hefur verið náð? Eru knattspyrnuþjálfarar og foreldrar iðkenda almennt meðvitaðir um skaðleg áhrif tíðra skalla? Eru til samræmdar reglur um hvernig bregðast eigi við höfuðhöggum í knattspyrnuleikjum og á æfingum? Hugsanlega og vonandi er fræðsla um þetta efni hluti af menntun allra þjálfara, en ég veit fyrir víst að þessi fræðsla er ekki hluti af menntun allra fótboltaforeldra.

Jafnvel þótt rannsóknir hafi, fram að þessu, ekki getað sannað með fullkominnu vissu að það að skalla fótbolta sé skaðlegt fyrir hugræna heilsu í framtíðinni, er afstaða mín sem fótboltamömmu: Verum varkár, og förum að öllu með gát á meðan frekari upplýsinga er aflað. Heilaheilsa barna okkar er í húfi.

Úr erlendum fjölmiðlum:
Heimildamynd af PBS um NFL deildina
Concussion crisis growing in girls’ soccer
A case for mental and physical rest in youth sports concussion: it’s never too late
Concussions Affect Children’s Brains Even After Symptoms Subside:
Football: Even minor hits can cause brain damage
Understanding the neuroinflammatory response following concussion to develop treatment strategies
Heads Up: Concussion in Youth Sports
Soccer, Heading For Trouble?
Youth Soccer League Bans Heading Because Of Concussion Risk

The sobering science of repeat concussions
Youth soccer program BANS heading for players under age of ten over head injury concerns


Byggt á:

Corsellis J. A. N., Bruton, C. J. og Freeman-Browne, D. (1973). The aftermath of boxing. Psychological Medicine, 3, 270-303.

Gavett, B. E., Stern, R. A. og McKee, A. C. (2011). Chronic traumatic encephalopathy: A potential late effect of sport-related concussive and subconcussive head trauma. Clinics in Sports Medicine, 30(1), 179-188.

Halldorsson, J., Flekkoy, K. M., Arnkelsson, G. B., Tomasson, K., Gudmundsson, K. R., and Arnarsson, E. O. (2008). The prognostic value of injury severity, location of event, and age at injury in pediatric traumatic head injuries. Journal of Neuropsychiatric Disease and Treatment, 4(2), 405-412.

Koerte I.K., Ertl-Wagner, B., Reiser, M., Zafonte, R., og Shenton, M.E. (2012). White matter integrity in the brains of professional soccer players without a symptomatic concussion. JAMA, 308(18), 1859-1861.

Stern, R. A., Riley, D. O., Daneshvar, D. H., Nowinski, C. J., Cantu, R. C. og McKee, A. C. (2011). Long-term consequences of repetitive brain trauma: Chronic traumatic encephalopathy. PM&R, 3(10, Supplement 2), S460-S467.

Toledo, E., Lebel, A., Becerra, L., Minster, A., Linnman, C., Maleki, N. et al. (2012). The young brain and concussion: Imaging as a biomarker for diagnosis and prognosis. Neuroscience & Biobehavioral Reviews, 36(6), 1510–1531.

Witol, A. D. og Webbe, F. M. (2003). Soccer heading frequency predicts neuropsychological deficits. Archives of Clinical Neuropsychology, 18(4), 397-417.

Photo credit: http://www.flickr.com/photos/reway2007/3758652958/ (reway2007 photostream)
http://www.flickr.com/photos/toneesworld/2938413632/ (Tonee Despojo photosream)

This entry was posted in Áverkeheilabilun, Heilabilun, Heilabörkur, Hreyfing and tagged , , , . Bookmark the permalink.

Leave a Reply