Svefn er ekki tímasóun!

Day 4/365- Books AboundAllan Rachtschaffen, sem var frumkvöðull í svefnrannsóknum, sagði að ef svefn gegndi ekki lífsnauðsynlegu hlutverki hlyti hann að vera stærstu þróunarfræðilegu mistökin sem gerð hefðu verið.

Þrátt fyrir að góður svefn sé okkur öllum mjög nauðsynlegur er hann engu að síður oft vanmetinn. Fyrir vikið sofa margir allt of lítið. Og það á ekki bara við um unglinga!

Rannsóknir síðustu áratuga hafa sýnt að góður nætursvefn er mikilvægur til þess að festa upplýsingar, sem við höfum nýlega lært, í minni. Og það er ekki einvörðungu vegna þess að svefn er endurnærandi og gerir okkur auðveldara um vik að læra. Svefn hefur bein áhrif á minnið. Við ættum því aldrei að vanmeta gildi svefns.

Hægar heilabylgjur og minnisfesting
Flestir vita að í svefni förum við í gegnum nokkur svefnstig. Þó má skipta svefninum í tvo meginhluta, hægan svefn (NREM) og draumsvefn (REM). Dýpsta stig NREM einkennist af hægum heilabylgjum. Þessi svefn er því kallaður hægbylgjusvefn (enska: slow-wave sleep, SWS).

Þegar við lærum nýja hluti eru upplýsingar skráðar og geymdar tímabundið í svokölluðum dreka og svæðunum sem umlykja hann í gagnaugageiranum. Drekinn, sem er í báðum heilahvelum, tengist einnig svæðum í heilaberkinum sem voru virk á meðan nám fór fram. Í þeim hægbylgjusvefni sem kemur á eftir náminu virkjast þessi taugatengsl enn á ný og styrkjast uns það sem við lærum er flutt til endanlegrar geymslu annars staðar í heilanum (þ.e. utan drekans). Drekinn er þó ekki alveg laus allra mála því til hans kasta getur komið við upprifjun síðar meir.

Það er áhugavert að hægbylgjusvefn skuli tengjast námi og minnisfestingu á þennan hátt. Okkur finnst nefnilega eðlilegt að tengja nám virkri hugarstarfsemi. Samt hefur komið í ljós að meðvitundarleysi eða það að vera off-line í þó nokkurn tíma á hverri nóttu er mikilvægt til að minni okkar geti starfað eðlilega. Þannig að ef þú vakir vanalega heilu næturnar til að læra fyrir próf ættirðu að endurskoða námsaðferðir þínar!

Passaðu að sofa nægilega mikið


Hefurðu einhverntíma heyrt einhvern segja, og kannski með stolti?: Iss, ég þarf bara að sofa í fjórar klukkutíma! Margaret Thatcher var ein af þeim heppnu en fæst okkar eru eins og hún hvað þetta varðar. Flest okkar þurfa meiri svefn, eða að meðaltali 7-8 klukkustundir.

Að mínu mati er svefn stórlega vanmetinn og við ættum ekki að hreykja okkur af því að þurfa að sofa lítið. Virðið einstaklingsmuninn og njótið alls þess svefns sem þið þurfið. Sofið eins og þið þurfið til að vakna ekki þreytt að morgni. Það hefur marga kosti. Meðal annars betra minni.

 

Ef þú átt í erfiðleikum með svefn er mikilvægt að taka á því máli. Hér eru góð ráð: http://www.heilsubankinn.is/vefur/index.php?option=com_content&task=view&id=486

 

Byggt á:

Born, J. & Wilhelm, I. (2012). System consolidation of memory during sleep. Psychological Research, 76, 192-203.

Marshall, L., Helgadóttir, H., Mölle, M. & Born, J. (2006). Boosting slow oscillations during sleep potentiates memory. Nature, 444(7119), 610-613.

Walker, M. P. (2009). The role of sleep in cognition and emotion. The Year in Cognitive Neuroscience 2009: Annals of the New York Academy of Sciences, 1156, 168-197.


 

This entry was posted in Uncategorized. Bookmark the permalink.

Leave a Reply