Þolþjálfun verndar heilann fyrir áhrifum öldrunar

Eins og ég sagði ykkur í þessum pistli, hefur lífstíll mikil áhrif á það hvernig heilinn eldist. Ég lofaði að fara nánar út í þá sálma og ákvað að byrja á áhrifum hreyfingar á formgerð heilans.

Um leið og ég byrjaði að lesa mér til um efnið læddist samviskubitið að mér (af einhverjum ástæðum er það aldrei langt undan). Ég keypti mér nefnilega árskort í ræktina í október. Svona eftir á að hyggja, þá stóð ég mig ekkert illa fyrsta mánuðinn, þó ég hafi trúlega aldrei náð upphaflega markmiðinu, að æfa 5 sinnum í viku. En síðan þá hefur allt verið á niðurleið. Af hverju er þetta svona erfitt?.

Það eru ekki til mjög margar rannsóknir á áhrifum hreyfingar á rúmmál heila, en hér eru nokkrar sem ég fann um þetta spennandi efni.

Running to the mountains.

Í einni rannsókn á 55 heilbrigðum einstaklingum á aldrinum 55 til 79 ára kom í ljós að aldurstengd rýrnun í heilavef þeirra einstaklinga sem voru í góðri þolþjálfun var minni en þeirra sem ekki voru það og var ávinningur þjálfunar mestur á þeim svæðum sem helst verða aldrinum að bráð. Því var gerð tilraun í framhaldinu þar sem heilbrigt kyrrsetufólk á aldrinum 60 til 79 ára hlaut sex mánaða þolþjálfun. Við lok þjálfunar sást aukning á rúmmáli bæði í gráa og hvíta efninu. Slíkar breytingar sáust ekki hjá hópi sem stundaði einungis teygju- og styrktaræfingar. Þriðja rannsóknin sýndi ennfremur að þeir sem voru í betri þjálfun höfðu meira rúmmál dreka (hippocampus) heldur en þeir sem voru í verri þjálfun, en drekinn gegnir lykilhlutverki í starfsemi minnis.

Tauganæringarprótein
Niðurstöður dýrarannsókna benda eindregið til að líkamsþjálfun styrki starfsemi heila, meðal annars með því að styrkja nýmyndun og lífshorfur taugafruma og nýmyndun æða, en heilbrigt æðakerfi undirbyggir getu taugafrumu til efnaskipta.


Fyrirsögnin er þýðing mín á neurotrophic factors en trophin er gríska orðið yfir næringu. Þetta eru prótein sem auka lífslíkur taugafruma, örva þroska þeirra og virkni. Ein tegund tauganæringapróteina eru svokölluð BDNF (brain-derived neurotrophic factor) en það gegnir lykilhlutverki í viðhaldi og vexti taugafruma, örvar boðskipti á milli þeirra og hefur áhrif á námsgetu og minni. BDNA hefur líka örvandi áhrif nýmyndun taugafruma (já þú last rétt, það var ekki hárnákvæmt sem okkur var sagt fyrir 20 árum síðan, að taugafrumur endurnýjuðu sig ekki). Rannsóknir hafa sýnt að hreyfing eykur magn BDNF umtalsvert í blóði fólks.

Hreyfing er trúlega einfaldasta leiðin til þess að vernda heilann gegn áhrifum aldursins og er alveg sérlega mikilvæg forvörn fyrir fólk á miðjum aldri.

Byggt á:

-Colcombe, S. J., Erickson, K. I., Raz, N., Webb, A. G., Cohen, N. J., McAuley, E., & Kramer, A. F. (2003). Aerobic fitness reduces brain tissue loss in aging humans. The Journal of Gerontology 58A(2), 176-180.

-Colcombe, S. J., Erickson, K. I., Scalf, P. E., Kim, J. S., Prakash, R., McAuley, E., Kramer, A. F. (2006). Aerobic exercise training increases brain volume in aging uumans. The Journals of Gerontology Series A: Biological Sciences and Medical Sciences, 61(11), 1166-1170.

– Cotman, C. W., & Berchtold, N. C. (2002). Exercise: a behavioral intervention to enhance brain health and plasticity. Trends in Neurosciences, 25(6), 295-301.

-Erickson, K. I., Prakash, R. S., Voss, M. W., Chaddock, L., Hu, L., Morris, K. S., Kramer, A. F. (2009). Aerobic fitness is associated with hippocampal volume in elderly humans. Hippocampus, 19(10), 1030-1039.

-Rasmussen P, Brassard P, Adser H, Pedersen MV, Leick L, Hart E, et al. (2009). Evidence for a release of brain-derived neurotrophic factor from the brain during exercise. Experimental Physiology, 94(10), 1062-1069.

This entry was posted in Dreki, Heilinn, Líkamsrækt. Bookmark the permalink.