Gefum heilanum gaum: Tölvustýrt mat á ökuhæfni eftir heilablóðfall og heilaskaða

Tinna Jóhönnudóttir
Tinna Jóhönnudóttir
Claudia Georgsdóttir
Claudia Georgsdóttir

Einkenni frá miðtaugakerfi sem oft fylgja heilablóðfalli og heilaskaða geta haft töluverðar afleiðingar fyrir hæfni fólks til að aka bíl. Hér má nefna breytingar á hugrænni getu og skynjun, eins og til dæmis sjónúrvinnslu, svo og hegðun, tilfinningum og jafnvel persónuleika. Samspilið milli þessara taugasálfræðilegu einkenna er afar flókið og ekki alltaf auðskilið ef notuð eru matstæki sem leggja ekki áherslu á þetta samspil. Þess vegna er nauðsynlegt að öðlast skilning á því hvernig einkenni frá miðtaugakerfi spila saman og tengjast ökuhæfni, og þróa aðferðir og tækni til að mæla þetta samspil. Ljóst er að hér þurfa margar fagstéttir að vinna saman.

Sá fjöldi stofnana víðsvegar í Evrópu sem metur bæði læknifræðilega og taugasálfræðilega þætti ökuhæfni er einnig vísbending um þörfina á heildrænu mati á ökuhæfni í kjölfar veikinda. Á Íslandi er enn skortur á klínískum leiðbeiningum á þessu sviði og hin síðari ár hefur í síauknum mæli verið kallað eftir réttmætari matsaðferðum á ökuhæfni almennt og ökuhæfni eftir veikindi sérstaklega.
Árið 2005 var austurríska tölvustýrða forritið og matstækið Expert System Traffic (XPSV, Schuhfried GmbH) gefið út, sem í dag er notað, í heild eða að hluta til, á matsstofnunum á sviði umferðaröryggismála víða um Evrópu. Þetta matstæki er aðferðafræðilegt framfaraskref í þá átt að þróa réttmætt mat á ökuhæfni og er nú notað á Grensásdeild Landspítala.

Þess er vænst að notkun XPSV leiði til þróunar á réttmætum og fjárhagslega hagkvæmum klínískum leiðbeiningum og matsaðferðum á ökuhæfni á Íslandi, minnki líkur á röngum ákvörðunum varðandi ökuhæfni og auki umferðaröryggi, auk þess sem það gæti nýst við endurmenntun ökumanna.

Claudia Georgsdóttir, Ph.D.
sérfræðingur í klínískri taugasálfræði og
Tinna Jóhönnudóttir, Cand. Psych. nemi
sálfræðiþjónusta LSH – Grensási

Byggt á:
1. Akinwuntan, A. E., Feys, H., De Weerdt, W., Pauwels, J., Baten, G., og Strypstein, E. (2002). Determinants of driving after stroke. A retrospective study. Archives of Physical Medicine and Rehabilitation, 83, 334–341.
2. Hjalti Már Björnsson, og Kristín Sigurðardóttir (2005). Ökuhæfni sjúklinga. Læknablaðið, 11(91), 870-871.
3. Schuhfried, G. (2005). Manual Expert System Traffic (XPSV). Mödling: SCHUHFRIED GmbH.

This entry was posted in Alþjóðleg heilavika 2013. Bookmark the permalink.

Leave a Reply