Um bloggið

Við vitum öll að heilinn okkar er stórkostlegur og flókinn. Niðurstöður rannsókna um starfsemi heilans sem rata í fjölmiðla eru oftar en ekki þær sem eru sérkennilegar, óvenjulega og fyndnar. Við höfum til að mynda heyrt um að heilar frjálslyndra og íhaldsamra séu mismunandi og um muninn á þeim sem hafa ríkjandi hægra heilahvel eða ríkjandi vinstra heilahvel. Við heyrum líka oft að við vitum ekki mikið um heila mannskepnunnar, að hann sé dularfullur og að erfitt sé að rannsaka hann.

BRAIN HUE Collection by Emilio Garcia

Gamlar mýtur eru lífseigar. Ein er sú að við notum aðeins 10% heilans en þá mýtu er auðvelt að hrekja. Við vitum til að mynda að mjög litlar skemmdir á tilteknum svæðum í heilanum geta haft skelfilegar afleiðingar. Þekkt dæmi um þetta er Kevin, sem Elkhonen Goldberg (1) lýsti. Kevin féll af hestbaki og hlaut tiltölulega smáa skemmd  á svæði sem   kallað er undirslæða (ventral tegmental area). Afleiðingarnar voru miklar breytingar í persónuleika hans og í hegðun almennt. Ef við gætum starfað eðlilega án þess að nota meiri hluta heilans hefðu afleiðingarnar tæpast orðið svo miklar. Allir hlutar heilans eru nauðsynlegir!

En hversu mikið veistu um heila þinn og hvernig hann starfar? Veistu að þú getur gert heilmikið til þess að hafa áhrif á það hvernig heilinn eldist?  Veistu að heilinn getur endurnýjað sig að einhverju leyti? Veistu að tiltekið svæði í heilanum skynjar hreyfingu?

Markmiðið með þessu bloggi er að kynna þér hin margvíslegu undur heilans. Við munum ekki aðeins segja frá sérkennilegu og fyndnu hlutunum, heldur líka frá þeim hversdagslegu sem hafa áhrif á okkar daglega líf. Heimildir okkar koma aðeins úr fagtímaritum og bókum sem fjalla um taugasálfræði, taugavísindi og skyld svið, svo og klínískri reynslu.

Comments are closed.